Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Lögreglustöðinni í Keflavík lokað vegna raka og myglu
Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Suðurnesjum. VF/pket
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 16. október 2023 kl. 16:14

Lögreglustöðinni í Keflavík lokað vegna raka og myglu

Lögreglan á Suðurnesjum hefur lokað lögreglustöðinni við Hringbraut í Keflavík vegna raka og myglu. Lögreglustöðinni var skellt í lás í hádeginu í dag og næstu dagar fara í að koma starfseminni sem var á stöðinni við Hringbraut í starfsstöð við Brekkustíg. Reyna á að nota hluta húsnæðisins við Hringbraut áfram. Mögulegt er að nota fangageymslur áfram. Þar þarf að tryggja góð loftgæði og aðstöðu fyrir lögregluvakt á meðan fangar eru í húsinu.

Framkvæmdasýsla ríkisins gerði úttekt á húsnæði lögreglunnar við Hringbraut. Rannsókn leiddi í ljós raka í veggjum og gólfum. Þá greindist einnig mygla á þeim stöðum sem sýni voru tekin.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Mygla var áberandi á varðstofu lögreglunnar. Þá má vel finna lykt í húsnæðinu sem bendir til þess að þar sé bæði raki og mygla.

Í spilaranum með fréttin er viðtal við Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóra á Suðurnesjum, um stöðuna í húsnæðismálum eftir tíðindi dagsins.

Nú er verið að skoða húsnæðiskost lögreglunnar á Suðurnesjum til framtíðar. Ljóst er að lögreglustöðin við Hringbraut verður ekki endurbyggð. Byggja þarf nýtt húsnæði yfir alla starfsemi lögreglunnar til framtíðar og sameina undir eitt þak starfsemi sem í dag er á Hringbraut, Brekkustíg og í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Lögreglustjóri mun á morgun, þriðjudag, eiga fund með Framkvæmdasýslu ríkisins um málið.

Til bráðabirgða verður væntanlega komið fyrir færanlegum einingum á lóð lögreglunnar við Hringbraut til að nýta þá innviði sem þar eru.

Hvar lögreglustöð rís til framtíðar er ekki ljóst á þessari stundu en skipulagsyfirvöld hafa nefnt lóð í Grænás við Reykjanesbraut sem framtíðarstaðsetningu fyrir lögreglustöð.