Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 9. febrúar 2000 kl. 16:12

Lögreglustöðinni í Grindavík verður ekki lokað

Borgarafundur um löggæslumál var haldinn í Festi sl. fimmtudag á vegum bæjarstjórnar Grindavíkur, að viðstöddum Sólveigu Pétursdóttur dómsmálaráðherra, Jóni Eysteinssyni sýslumanni, Guðmundi Guðjónssyni frá Ríkislögreglustjóra og yfirlögregluþjóni í dómsmálaráðuneytinu Fundinn sátu einnig Þórir Maronsson yfirlögregluþjónn, starfsmenn sýslumannsembættisins og lögreglumenn. Heimamenn voru fjölmennir á fundinum og augljóst að Grindvíkingum er ekki sama um hvernig þessi mál þróast. Dómsmálaráðherra hélt fyrstu ræðu og fór um víðan völl í sínu máli. Hún sagði að búið væri að taka ákvörðun í þessu máli og að því yrði ekki breytt. Það olli Grindavíkingum sem á fundinum voru miklum vonbrigðum. Jón Eysteinsson sýslumaður sagði að þær breytingar hafi orðið á lögregluliðinu undanfarin ár vegna tölvuvæðingar og aukinnar skráningar, að þurft hafi að styrkja þær deildir lögreglunnar sérstaklega sem sjái um þann þátt. Hefur þá verið gripið til þess ráðs að taka menn af vöktum og setja þá bak við skrifborð, en þetta hefur leitt af sér að vaktirnar hafa veikst og verið stundum næstum óstarfhæfar vegna mannfæðar, sérstaklega ef mikið er um veikindi eða önnur forföll. „Mér ber sem lögreglustjóra í umdæminu, sem nær yfir Grindavíkurkaupstað, Vatnsleysustrandarhrepp, Reykjanesbæ, Sandgerðisbæ og Gerðahrepp, að tryggja að fullnægjandi löggæslu sé haldið uppi á öllum stöðum, en ekki einungis í Keflavík eða í Grindavík. Þó verður eins og Grindvíkingar hafa bent á að taka tillit til annarra þátta svo sem fjölda aðkomumanna og annarrar starfsemi sem getur aukið umfang löggæslu og nefni ég þar sérstaklega umferð sem fylgir stærsta ferðamannastað á Íslandi, Bláa lóninu. Þá þarf ekki að minna Grindvíkinga á þær hættur sem fylgja akstri á Grindavíkurvegi og Reykjanesbraut eins og við höfum svo sorglega verið minnt á undanfarnar vikur. Auðveldlega er hægt að efla eftirlit með því að sameina liðin og nýtast þá betur stakir lögreglumenn eftir því sem liðið er fjölmennara. Sönnunargildi framburðar eins lögreglumanns er ekki eins sterkt eins og tveggja og ber því að stefna að því að ævinlega séu tveir menn saman í eftirliti. Ef koma ætti á sólarhringsvöktum í Grindavík með núverandi skipulagi þyrfti að fjölga lögreglumönnum í Grindavík um fjóra og yrði liðið því 8 menn. Það er ljóst að beiðni um slíka fjárveitingu yrði ekki vel tekið, enda verður fjárveitingavaldið að gæta nokkurs jafnræðis gagnvart landsmönnum þegar peningum er úthlutað í löggæslu“. Megin breytingar Sólarhringsvakt verði komið á í öllu umdæminu. Löggæslu verði jafnað í umdæminu. Lögregluliðið verði sameinað í eitt öflugt lið. Fjölgað verði um tvo lögreglumenn á vöktum. Fækkað verði um einn í skrifstofuliði. Þá verði settar ýmsar verklagsreglur er tengjast stjórnun sem miða að bættri yfirstjórn. „Ég bind miklar vonir við þetta skipulag og horfi ég sérstaklega til forvarna, en með stærra liði getum við lagt aukna áherslu á þann þátt. Þegar liðið er ekki stærra en það er í dag er lítið svigrúm til að sinna öðru en útköllum, en forvarnir vilja sitja á hakanum. Hér í Grindavík hefur verið unnið frábært starf á sviði forvarna og þið eruð fyrirmynd annarra t.d. á sviði útivistarmála. Samstarf lögreglunnar og bæjaryfirvalda heldur áfram á sömu braut og mun Sigurður Ágústsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, sinna því eins og hingað til hér í Grindavík, en við viljum jafnframt að hann taki að sér Vatnsleysustrandarhrepp og nái þar jafngóðum tökum á forvarnarmálum, en hreppurinn hefur óskað eftir meiri löggæslu“, sagði Jón ennfremur.. Mikil ólga er hjá Grindvíkingum vegna skipulagsbreytinga hjá lögreglunni og er skiljanlegt að ekki séu allir á eitt sáttir. Á næstu mánuðum og árum verða miklar skipulagsbreytingar í löggæslu á Íslandi og sagðist sýslumaður þá horfa til nýs fjarskiptakerfis sem tekið verður í notkun í sumar. Með þessum breytingum mun vægi varðstöðva minnka því allar upplýsingar verður hægt að fá úr tölvu í lögreglubifreiðunum sjálfum. Þá má einnig hugsa sér að einföld skýrslugerð verði unnin í lögreglubifreiðunum samhliða því sem rætt er við þann aðila sem afskipti voru höfð af, en alltof mikill tími lögreglumanna fer í skýrslugerð á lögreglustöð þegar þeir geta komið betur að gagni við eftirlit og aðrar forvarnir sagði sýslumaður. Fjölmargir bæjarbúar komu í pontu og lýstu áhyggjum sínum af ástandinu og voru þær áhyggjur samróma á þann veg að hér væri um skerðingu á þjónustu að ræða og tortryggni á eftirlit frá Keflavík í stað Grindavík. Forsvarsmenn lögreglunnar lögðu á það áherslu að lögreglustöðinni í Grindavík verði ekki lokað, heldur verði þar starfsstöð og aðsetur fyrir lögreglumenn. Þá mun Sigurður Ágústsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hafa þar fast aðsetur. Í lokaorðum á fundinum lagði Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra til að yfirmenn lögreglu og bæjaryfirvalda myndu hittast á fundum og finna ásættanlega niðurstöðu í málinu þó svo hún styddi fyrirhugaða breytingu sem verður tekin til framkvæmda 1. mars. nk.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024