Lögreglustjóri: Tjáir sig ekki opinberlega
Jóhann R. Benediktsson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, ætlar ekki að tjá sig opninberlega, a.m.k. ekki fyrst um sinn, um þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á embætti hans. Hann var kallaður á fund í dómsmálaráðuneytinu í dag, þar sem honum voru kynntar þær skipulagsbreytingar sem fyrirhugaðar eru á embættinu frá og með 1. júlí nk.
Jóhann kynnti breytingarnar fyrir lögreglumönnum embættisins nú undir kvöld, en Lögreglufélag Suðurnesja heldur aðalfund sinn nú í kvöld og bauð Jóhanni að koma þangað til að kynna breytingarnar. Jóhann R. Benediktsson notaði tækifærið þar og þakkaði lögregluönnum, tollvörðum og öryggisvörðum þá samstöðu sem þeir hafa sýnt embættinu á síðustu dögum.
Nú fer í hönd undirbúningsvinna vegna breytinganna og er stefnt að því að nýtt skipulag taki gildi frá 1. júlí 2008. Engin röskun verður á starfsemi Keflavíkurflugvallar og löggæslu á Suðurnesjum og engar uppsagnir eru fyrirhugaðar í tengslum við breytingarnar, segir í tilkynningu dómsmálaráðuneytisins.