Lögreglustjóri segir upp störfum
Jóhann R. Benediktsson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, hefur sagt upp störfum. Þetta var upplýst á fjölmennum fundi með Össuri Skarphéðinssyni, iðnaðarráðherra, um þjóðmálaumræðu sem Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis stóð að í samstarfi við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Það var Grétar Mar Jónsson, alþingismaður, sem upplýsti um uppsögn lögreglustjórans og Össur Skarphéðinsson, ráðherra, staðfesti að hann hafi heyrt af uppsögninni fyrr í dag.
Kom fram á fundinum að uppsögnin væri fram komin í mótmælaskyni við þá ráðstöfun að skipta embætti lögreglustjórans upp, þar sem lögregla yrði sérstök eining undir dómsmálaráðuneyti, tollverðir færu undir fjármálaráðuneyti og öryggisverðir undir samgönguráðuneyti.
Jafnframt kom fram á fundinum að hugsanlega yrði lögregluhlutanum skipt enn frekar upp og að lögreglumenn sem sinna Schengen-landamæravörslu yrðu að sjálfstæðri einingu.