Lögreglustjóri segir tilefni til þess að hafa áhyggjur
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir tilefni er til þess að hafa áhyggjur af því að hraun geti náð inn fyrir varnargarða við Grindavík. Þannig er möguleiki á að hraun sem kæmi upp úr gosopi norðan varnargarða ofan bæjarins geti leitað ofan í sprungukerfi sunnan Hagafells og leitt hraunstraum inn fyrir bæjarmörkin. Þá er ekki hægt að útiloka að gossprunga geti opnast inn í Grindavík. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglustjóranum.
Lögreglustjóri tekur skýrt fram að Grindavík er ekki staður fyrir barnafólk eða börn að leik. Lögreglustjóri mælir alls ekki með því að íbúar dvelji í bænum. Svæði með óásættanlegri áhættu hefur verið skilgreint. Það svæði er austan Víkurbrautar og norðan Austurvegar. Það eru tilmæli frá lögreglustjóra að þar dvelji enginn að næturlagi.
Íbúar, starfsmenn og gestir dvelja inn á hættusvæði á eigin ábyrgð. Hver og einn verður að bera ábyrgð á eigin athöfnum eða athafnaleysi.
Jarðsprungur eru víða í og við bæinn og sprungur geta opnast án fyrirvara. Í Grindavík er talin mjög mikil hætta á jarðfalli ofan í sprungur, sprunguhreyfingum, hraunflæði og gasmengun. Gosopnun innan Grindavíkur er ekki útilokuð.
Fáir Grindvíkingar kjósa að dvelja í bænum næturlangt en dvalið var í 34 húsum síðastliðna nótt. Lögreglustjóri mælir alls ekki með því og getur ekki ábyrgst öryggi þeirra við núverandi aðstæður.
Viðbragðsaðilar eru við störf í Grindavík og lögregla og slökkvilið sinna lögbundnu eftirliti í bænum eins og verið hefur. Þá er sjúkrabíll staðsettur í Grindavík alla daga á dagtíma, segir jafnframt í tilkynningu lögreglustjórans.