Lögreglumenn hlupu ökumann uppi
Ökumaður sem lögreglan á Suðurnesjum handtók um helgina vegna fíkniefnaaksturs reyndi að stinga af á hlaupum. Hann hafði verið fenginn yfir í lögreglubifreið til viðræðna, þegar hann stökk allt í einu út úr henni og tók á rás. Lögreglumenn hlupu á eftir honum og náðu honum eftir að hann hafði hoppað yfir grindverk og inn í garð. Maðurinn reyndist vera í mjög annarlegu ástandi svo hann var settur í járn og færður á lögreglustöð. Sýnatökur þar staðfestu neyslu hans á amfetamíni, metamfetamíni og kannabis.
Tveir ökumenn til viðbótar voru handteknir eftir að þeir höfðu orðið uppvísir að fíkniefnaakstri. Í bifreið annars þeirra fannst hvítt duft í plastboxi og leikur grunur á að þar hafi verið um fíkniefni að ræða.