Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Lögreglumenn á eigin ábyrgð við æfingar í jólatraffíkinni
Miðvikudagur 17. desember 2008 kl. 01:17

Lögreglumenn á eigin ábyrgð við æfingar í jólatraffíkinni



Eins og greint var frá hér á vefnum fyrr í vikunni hafa lögreglubílar á forgangsljósum og með sírenur verið fyrirferðarmiklir í jólatraffíkinni í Reykjanesbæ. Hafa þeir ekið á talsverðum hraða í annars þungri umferð og í lélegum akstursskilyrðum.

Síðast í gær, þriðjudag, mátti sjá lögreglubíl merktan lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þjóta í gegnum þunga umferð á Njarðarbraut í Reykjanesbæ. Við stýrið eru lögreglumenn sem eru að læra forgangsakstur.

Talsvert hefur verið hringt til Víkurfrétta vegna þessa aksturs lögreglunnar. Bæði eru það árvökulir vegfarendur sem eru duglegir að láta blaðamenn Víkurfrétta vita þegar viðbragðsaðilar á forgangsljósum eru á ferð í þeirri trú að slys hafi orðið. Einnig hringdi fólk sem hneykslaðist á því að hafa þurft að víkja fyrir lögreglubílum á forgangsljósum, sem síðar slökktu ljósin og létu sem ekkert væri.

Einn af þeim sem urðu vitni að þessum æfingum lögregluskólans í miðri jólatraffíkinni í Reykjanesbæ benti á að þessar æfingar væru að fara fram við mjög hættulegar aðstæður. Bæði væri þétt umferð og eins gangandi umferð en æfingar lögregluskólans hafa m.a. farið fram í ljósaskiptunum. Á meðfylgjandi myndum sést vel við hvaða aðstæður var ekið.

Víkurfréttir ræddu við lögregluskólagenginn aðila sem benti á að ökumenn lögreglubílanna væru á eigin ábyrgð undir stýri við þessar aðstæður. Það væri því á þeirra ábyrgð að passa að aka ekki niður gangandi vegfaranda þar sem þeir brunuðu í gegnum bæinn á bláum í ljósaskiptunum. Hann vildi meina að þessar æfingar ættu heima annars staðar en innan um blásaklausa bæjarbúa í ys og þys jólaundirbúnings.


Lögreglan á Suðurnesjum vísaði alfarið á Lögregluskólann með nánari upplýsingar um þessar æfingar í forgangsakstri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



Ljósmyndari Víkurfrétta tók meðfylgjandi myndir í ljósaskiptunum í gær, þriðjudag, þegar lögreglubíll merktur lögreglu höfuðborgarsvæðisins brunaði eftir Njarðarbrautinni í Reykjanesbæ.