Lögreglumannatalið mikilvægt
Afhentu Sögu lögreglunnar í Keflavík.
„Með því merkilegasta í þessari bók er lögreglumannatalið,“ sagði Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, eftir að hafa blaðað í gegnum Sögu lögreglunnar í Keflavík sem Jón Eysteinsson, fyrrverandi sýslumaður, afhenti honum á mánudag. Við afhendinguna voru einnig staddir Jóhannes Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og Ásgeir Eiríksson, fulltrúi sýslumanns.
Auk um 100 blaðsíðna lögreglumannatals eru í bókinni reynslusögur fjölda lögreglumanna úr starfi, umfjöllun um sögu lögreglunnar og fjöldi mynda. Einar Ingimundarson tók saman efni og ritaði en fyrrum og núverandi félagar Lögreglufélags Suðurnesja hafa verið í ritnefnd og hefur félagið stutt við útgáfu bókarinnar. Í henni er rakin saga lögreglunnar í Keflavík í máli og myndum. Hún er góð heimild um líf og störf lögreglumanna og er þar að finna mikinn fróðleik um lögregluna áður fyrr og fram til ársins 2007.
Bókin er í prentun en hægt er að panta hana í forsölu á sérkjörum fram til 7. nóvember í gegnum netfangið [email protected] en eftir það verður hún aðeins dýrari. Kynning á útgáfunni fer fram í Bókasafni Reykjanesbæjar Tjarnargötu 12, Reykjanesbæ, föstudaginn 7. nóvember kl. 16-18 og eru lögreglumenn hvattir til að mæta.