Lögreglumál rætt á Alþingi
Málefni lögregluembættisins á Suðurnesjum komu enn til umræðu á Alþingi í dag. Áætlunum dómsmálaráðherra um að skipta embættinu upp hefur víðast hvar verið tekið fálega en í þeim er gert ráð fyrir að Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli og Lögreglan á Suðurnesjum verði aðskilin.
Ástæðan, að sögn ráðuneystisins er bæði langvarandi halli á rekstri embættisins, fyrirhugaður halli í ár var 200 milljónir, sem og að með uppskiptingunni yrði málunum komið í sama horf og tíðkast annars staðar á landinu.
Vitað var að þingflokkur Samfylkingar var ekki sáttur við tillögurnar og beið frekari rökstuðnings áður en Ríkisendurskoðun hóf úttekt á embættinu og var ákveðið að fresta afgreiðslu þar til sú skýrsla lægi fyrir.
Í dag bar hins vegar svo við að Siv Friðleifsdóttir, Framsóknarflokki, lagði fram fyrirspurnir um málið, þ.á.m. hver rökin væru fyrir aðskilnaðinum og hvort lögreglustjórn yrði færð frá Suðurnesjum til Reykjavíkur.
Í kjölfarið spannst nokkur umræða þar sem hæst bar ræða Lúðvíks Bergvinssonar, þingflokksformanns Samfylkingar þar sem hann vildi að skoðað yrði að leggja niður embætti ríkislögreglustjóra þar sem það hafi þróast langt út fyrir það sem ætlast var til í upphafi.
Árni Páll Árnason, flokksbróðir Lúðvíks, sagði að margt bendi til þess að fjárveitingar til lögreglunnar á Suðurnesjum hafi ekki verið fullnægjandi í gegnum tíðina og að ekki sé sífellt hægt að draga úr þjónustu. Hvatti hann til þess að verkefni yrðu flutt frá embætti Ríkislögreglustjóra til lögreglunnar á Suðurnesjum og á Höfuðborgarsvæðinu.
Stjórnandstæðingar gripu þessi ummæli Lúðvíks á lofti og deildu hart á dómsmálaráðherra, sem svaraði því til að honum kæmi á óvart hvernig talað væri um ríkislögreglustjóra. Hann tengdist ekki málefnum lögreglunnar á Suðurnesjum, heldur stafaði vandi embættisins m.a. af því hve illa Valgerður Sverrisdóttir hafi staðið að verki við undirbúning flutnings þess milli ráðuneyta.
Heimild: www.Eyjan.is