Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Lögreglukonum fjölgar á Suðurnesjum
Lögreglukonur af Suðurnesjum. Mynd úr ársskýrslunni.
Föstudagur 4. júlí 2014 kl. 15:00

Lögreglukonum fjölgar á Suðurnesjum

Starfið gert meira aðlaðandi fyrir konur og fjölskylduaðstæður.

Fjölgun var í röðum lögreglukvenna við embætti lögreglunnar á Suðurnesjum á árinu 2013. Árið 2012 störfuðu 84 lögreglumenn við embættið, þar af 8 lögreglukonur, en árið 2013 störfuðu 89 lögreglumenn, þar af 12 lögreglukonur. Þetta kemur fram í ársskýrslu Lögreglunnar á Suðurnesjum.

Í nóvember 2012 var undirrituð framkvæmdaáætlun á sviði jafnréttismála fyrir embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Meginmarkmið áætlunarinnar var að fjölga lögreglukonum sem starfa við embættið. Jafnframt var lögreglustarfið gert meira aðlaðandi fyrir konur hvað varðar fjölskylduaðstæður. Því voru gerðar sérstakar ráðstafanir í áætluninni til að mæta þörfum kvenna, til dæmis vegna meðgöngu og barneigna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Umræddar ráðstafanir geta tekið til sveigjanlegs vinnutíma eða breytinga á starfsvettvangi. Fljótlega á árinu 2013 reyndi á áætlunina er þrjár lögreglukonur tilkynntu að þær væru barnshafandi. Tvær af þessum lögreglukonum eru í vaktavinnu og fengu sveigjanlegan vinnutíma og breytingar á starfsaðstæðum. Sú þriðja sem er í dagvinnu fékk einnig boð um sveigjanlegan vinnutíma eða í samræmi við aðstæður sínar.