Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Lögregluembættum fækkað: Suðurnes óbreytt
Þriðjudagur 30. mars 2010 kl. 17:18

Lögregluembættum fækkað: Suðurnes óbreytt

Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu Rögnu Árnadóttur dómsmála- og mannréttindaráðherra þess efnis að lögregluumdæmum verði fækkað úr 15 í 6 og að yfirstjórn lögreglu verði skilin frá embættum sýslumanna frá og með 1. janúar 2011. Miðað er við að frumvarp þessa efnis verði lagt fram á Alþingi á morgun að fengnu samþykki stjórnarflokka. Markmiðið með breytingunum er m.a. að mæta lækkuðum fjárveitingum með sparnaði í yfirstjórn og draga sem minnst úr þjónustu. Um leið er komið til móts við ákveðin fagleg sjónarmið. Samkvæmt frumvarpinu mun fyrirkomulag lögreglumála á Suðurnesjum verða óbreytt.


Nái frumvarpið fram að ganga verða fjórir nýir lögreglustjórar utan höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja, þ.e. á Vesturlandi og Vestfjörðum, Norðurlandi, Austurlandi og Suðurlandi. Lögð er að auki til sérstök heimild handa dómsmálaráðherra til að fela sýslumanni daglega lögreglustjórn í umdæmi sínu, í umboði viðkomandi lögreglustjóra. Þannig verði unnt að taka tillit til aðstæðna í einstökum landshlutum. Gert er ráð fyrir að lögregluumdæmin verði nánar ákveðin með reglugerð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Lagt er upp með að lögreglustjórarnir fjórir komi úr hópi núverandi sýslumanna. Sýslumenn í öðrum embættum verði settir yfir þau sýslumannsembætti sem þannig losna. Því mun sýslumannsembættum fækka sem nemur þessum fjórum embættum. Í þessum áfanga er ekki ráðgert að fækka sýslumannsembættum frekar heldur verður unnið áfram að tillögum þess efnis.



Mynd: Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á Suðurnesjum. Hún mun sitja áfram í óbreyttu embætti samkvæmt frumvarpi Rögnu Árnadóttur dómsmála- og mannréttindaráðherra. Víkurfréttamynd: Ellert Grétarsson