Lögreglu- og björgunarlið í stórhættu
Virðing fyrir störfum lögreglu- og sjúkraflutningsmanna virðist oft á tíðum vera lítil sem engin. Jafnframt virðist vera svo að margir virða ekki viðvörunarmerki lögreglu og björgunarliðs á slysavettvangi og draga ekki úr ökuhraða. Þannig varð blaðamaður Víkurfrétta vitni að því síðdegis í gær þegar umferðarslys varð á Reykjanesbraut að blá blikkandi ljós á lögreglubílum, sjúkrabílum og tækjabíl slökkviliðs virtust algjörlega fara framhjá mörgum ökumönnum sem óku á hámarkshraða um slysavettvanginn. Þarna eru lögreglu- og björgunarlið í stórhættu.
Bifreið hafði farið útaf veginum á móti akstursstefnu en vegfarandi sem kom að slysinu lagði bifreið sinni í vegarkant samsíða akstursstefnu þar sem tvö börn, 3ja og 4ra ára leituðu skjóls þar til hjálp barst. Lögreglan lokaði ekki á umferð um Reykjanesbrautina í gær vegna slyssins en þrengdi að slysavettvangi til að reyna að draga úr umferðarhraða. Meðal annars þurftu lögreglu- og björgunarmenn að bera börnin tvö yfir Reykjanesbrautina. Þurftu menn þar að sæta lagi til að komast yfir brautina. Meðal annars varð blaðamaður vitni að því þegar bifreið var ekið á mikilli ferð framhjá lögreglumanni og sjúkraflutningsmanni sem voru með börnin í fanginu.
Lögreglumaður hjá lögreglunni á Suðrunesjum, sem Víkurfréttir ræddu við í dag, sagði það alltof algengt að fólk aki of hratt um slysavettvang. Ökumenn eigi að draga verulega á ökuhraða og sýna aðgát. Lögreglan reynir jafnframt að tryggja vettvanginn með því að leggja lögreglubílum þannig að þeir verji þá sem eru að vinna á vettvangi. Það sé bagalegt fyrir alla umferð ef loka þurfi akbrautum í hvert skipti sem verður slys. Það hefði þýtt í gær að Reykjanesbraut hefði verið lokuð í 40 mínútur til klukkustund.
Mynd: Frá slysstað á Reykjanesbraut í gær. Umferðarhraði er of mikill á slysstað og lögreglu- og björgunarlið oft í stórhættu.