Lögreglan tók meintan fíkniefnasala með miklar birgðir
Laust fyrir kl. 19:00 í gærkveldi handtók lögreglan í Keflavík mann í Reykjanesbæ sem var grunaður um að hafa fíkniefni í fórum sínum. Samkvæmt lögreglunni kom í ljós að hann hafði meðferðis þrjú grömm af meintu amfetamíni í neytendaumbúðum auk þess sem hann var með töluvert af peningum sem lögreglan telur að séu tilkomnir vegna fíkniefnasölu.
Í framhaldinu framkvæmdi lögreglan í Keflavík húsleit á heimili mannsins og fundust þar um 70 grömm af meintu amfetamíni í neytendaumbúðum, mikið magn af ofskynjunarsveppum, og töluvert magn af sígarettum sem talið er að sé smygl ofan af Keflavíkurflugvelli. Manninum var sleppt að lokinni skýrslutöku.