Lögreglan þefaði uppi landabrúsa
Mikinn áfengisþef lagði úr bifreið sem lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði um helgina. Grunur vaknaði um að ökumaðurinn væri undir áhrifum áfengis en niðurstöður áfengismælis sýndu að hann var bláedrú. Vegna þefsins báðu lögreglumenn um að fá að leita í bifreiðinni sem var heimilað. Í hanskahólfi bifreiðarinnar fannst landabrúsi sem farþegi í henni gekkst við að eiga. Kvaðst hann nýbúinn að kaupa landann og ætlaði hann til einkanota.