Lögreglan leitar að vopnuðum manni í Njarðvík - myndir
Fjölmennt lið lögreglunnar á Suðurnesjum leitar nú manns sem sást vopnaður á ferð við Hólagötu í Njarðvík um klukkan tíu í morgun. Lögreglan vildi ekki tjá sig um málið við fréttamann VF á staðnum nema að tilkynning um vopnaðan mann hafi borist.
Lögreglumenn leituðu í nágrenni Valgeirsbakarís og Sjálfstæðishússins í Njarðvík og síðan í skrúðgarðinum og nærliggjandi svæðum. Þeir ræddu við fólk sem kann að hafa séð manninn á hlaupum og leituðu einnig að vopni. Við skrúðgarðinn er leikskóli og sjá mátti lögreglumann fara og ræða við starfsmenn en börnin voru þá inni.
Ekki er vitað hvers kyns vopn maðurinn var með en von er á tilkynningu von bráðar frá lögreglunni.
Fleiri myndir frá leitinni má sjá í myndasafni VF.
Fjöldi lögreglumanna leitaði við Hólagötu og nágrenni í morgun.
Lögreglan spurði starfsfólk á gæsluvellinum.
Leitað var að hugsanlegu vopni í skrúðgarðinum.
Fjöldi lögreglumanna er við leit í Njarðvík. VF-myndir/pket.