Lögreglan auglýsir eftir landamæravörðum
10 stöður í boði
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (LSS) hefur auglýst 10 ný störf landamæravarða hjá embættinu laus til umsóknar. Starfsstöð þeirra verður í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Starfsskyldur þeirra felast í því að starfa við fyrsta stigs landamæraeftirlit í vegabréfahliðum við hlið lögreglumanna og undir þeirra stjórn.
Vegna mikillar fjölgunar farþega, sem fara um Keflavíkurflugvöll sem og um ytri landamærin, hefur verið tekin ákvörðun í samráði við hlutaðeigandi hagsmunaðila um að ráða landamæraverði, sem eru ekki menntaðir lögreglumenn, til starfa. Lögreglan hefur, að meginhluta til sinnt þessu starfi allt frá árinu 2001, en til þess að mæta kröfum um skilvirkni svo og mikilli fjölgun farþega, sem fara um Leifsstöð, varð þessi leið fyrir valinu. Lögregluyfirvöld í Noregi og Svíþjóð hafa um langt árabili haft landamæraverði í þjónustu sinni við landamæraeftirlit og er reynsla af því fyrirkomulagi talin góð. Ekki er verið að fækka lögreglumönnum með þessum breytingum heldur auka sveigjanleika í rekstri flugstöðvardeildar LSS. Slíkur sveigjanleiki er nauðsynlegur vegna sveiflna í verkefnum deildarinnar.
Landamæraverðir þurfa að uppfylla ákveðnar hæfniskröfur s.s. að vera íslenskir ríkisborgarar, hafa ekki gerst brotlegir við refsilög, standast bakgrunnsskoðun flugverndar, vera andlega og líkamlega heilbrigðir o.s.frv. Þeir sem verða ráðnir til starfa munu undirgangast ákveðna grunnþjálfun sem byggir á sameiginlegri kjarnanámskrá Schengenríkjanna. Kjaraleg umgjörð landamæravarða verður tryggð með stofnanasamningi lögreglustjórans á Suðurnesjum og Starfsmannafélags ríkisstofnana. Gert er ráð fyrir því að fyrstu landamæraverðirnir taki til starfa um miðjan maí nk.