Lögregla þefaði uppi kannabisræktun
Fundu einnig stera og ræktunartól.
Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði um helgina kannabisræktun í umdæminu. Lögreglumenn voru við hefðbundin eftirlitsstörf þegar þeir fundu mikla kannabislykt sem lagði út á götu. Lyktin leiddi þá að bílskúr í hverfinu. Þar inni reyndust vera rúmlega 100 vel þroskaðar kannabisplöntur. Húsráðandi, karlmaður á fimmtugsaldri, viðurkenndi að hafa ræktað plönturnar með sölu í huga. Við húsleit heima hjá honum fundu lögreglumenn einnig stera, sem voru haldlagðir, auk plantnanna og ræktunartóla.
Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.