Lögregla og tollgæsla: Um 17 kíló af fíkniefnum á Suðurnesjum
Lögreglu- og tollgæslumenn á Suðurnesjum hafa það sem af er ári tekið um 17 kíló af fíkniefnum. Síðast í gær var lagt hald á á fjórða hundrað kannabisplöntum. Gunnar Schram hjá lögreglunni á Suðurnesjum sagði plönturnar hafa verið á ýmsum ræktunarstigum.
Gunnar sagði að lögreglan og tollgæslan ættu gott samstarf í fíkniefnamálum, en kílóin 17 hafa bæði verið tekin við landamæraeftirlit í Leifsstöð og eins í bæjarfélögum Suðurnesja.
Á þessu ári hefur kannabisræktun verið upprætt bæði í Vogum og Sandgerði. Þá kom nýlega upp stórt fíkniefnasmyglmál í farþegaþotu, þar sem fíkniefnin, á sjötta kíló, voru falin á salerni flugvélar sem kom til landsins.