Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Lögregla og slökkvilið undir sama þak?
Miðvikudagur 14. nóvember 2007 kl. 09:34

Lögregla og slökkvilið undir sama þak?

Sá möguleiki er nú skoðaður að slökkvilið og lögregla fari undir eitt þak í nýrri byggingu sem rísa myndi við svokallaða Þjóðbraut, skammt undan Flugvallarvegi. Staðsetningin þykir mjög ákjósanleg, stutt er að fara inn á Reykjanesbraut til annarra byggðalaga  auk þess sem hún liggur vel gagnvart öllum hverfum Reykjanesbæjar og Flugstöðinni.

Málið kom til tals á síðasta bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ. Steinþór Jónsson, formaður USK, sagði að umrædd lóð væri frátekin fyrir þessa starfsemi í þeirri von að málið fengi brautargengi hjá þeim aðilum sem þyrftu að fjalla um það. Mikilvægt væri að þetta mál næði fram að ganga sem fyrst.

Sem kunnugt er hefur bygging nýrrar slökkvistöðvar verið til umræðu um tíma. Þá hefur lögregluembættið átt við þröngan húsakost að etja sem sést best á því að utan við lögreglustöðina í Grænási hefur ástandinu verið mætt með lausum skrifstofugámum.

Björk Guðjónsdóttir, forseti bæjarstjórnar, gat þess að á meðan lögregluembættið væri ekki undir sama þaki væri sú hagræðing sem átti að nást með sameiningu lögregluembættanna ekki að skila sér sem skyldi. Björk benti á að lögreglustöðvarnar við Grænás og Hringbraut væru áratuga gamlar og stæðust ekki þær kröfur sem gerðar væru til slíks húsnæðis í dag. Þrátt fyrir þær kröfur hefði ný lögreglustöð ekki verið byggð hér á landi í áraraðir.


Mynd: Við lögreglustöðina í Grænási. Þessi húsakostur getur varla talist ásættanlegur til framtíðar litið. VF-mynd:Þorgils. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024