LÖGGUFRÉTTIR
				
				Tilgangslaus eyðilegging Skemmdarvargar fóru mikinn í Reykjanesbæ í vikunni sem leið og ollu eignatjóni víðs vegar á svæðinu. Skemmdarhrinan hófst um miðjan dag fyrir viku síðan er einhverjir hugrakkir einstaklingar réðust á mannlausa bíla og vinnuvélar á athafnasvæði Ellerts Skúlasonar við Sjávargötuna í Njarðvík.  Brutu hetjurnar rúður og ljós. Aðfararnótt laugardagsins var bifreið stórskemmd þar sem hún hafði verið skilin eftir á Vogastapa á Reykjanesbraut. Rúður voru brotnar, bifreiðin dælduð og rótað til í bifreiðinni. Á sunnudag var tilkynnt um innbrot í 3 númerslausar bifreiðar á Iðavöllum og var ein þeirra skemmd lítillega. Á mánudag var jarðýta við Heiðarskóla skemmd, rúða brotin og útvarp og heyrnarskjól tekið ófrjálsri hendi. Þá voru einnig skemmdar 3 bifreiðar á Sólvallargötu, bílarnir rispaðir og dældaðir þannig að mikið tjón hlaust af.  Þjófnaðaralda í VallahverfinuBeverly Hills hverfi okkar Reykjanesbæjarbúa, Vallahverfið, varð fyrir árás þjófóttra síðastliðinn miðvikudag. Við Ránarvelli var farið inn í 2 bifreiðar og það stolið geislaspilurum, sólgleraugum og hleðslutæki fyrir GSM síma. Á Óðinsvöllum var einnig farið inn í tvær bifreiðar og 2 radarvörum stolið ásamt seðlaveski og á Bragavöllum varð einn bifreiðaeigandi fyrir innbroti. Engu var stolið úr bifreiðinni en þjófurinn gerði sér lítið fyrir og fór inn í hús og stal þaðan myndavél. Það vakti athygli lögreglu að í flestum þessum þjófnuðum voru bifreiðarnar ólæstar.
				
	
				
					
						
					
					
						
					
				
				
				 								
			




 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				