Löggan stöðvaði spyrnugaura
Lögreglan hafði í nógu að snúast um síðustu helgi þegar mörg mál rötuðu inn á hennar borð. Hópur ökumanna var saman kominn á bifreiðum sínum við Selvík og höfðu þeir verið í spyrnu. Þeir óku burt fljótlega eftir að lögregla mætti á svæðið.
Þá var töluvert af hávaðaútköllum um helgina.
Piltur sem lögreglan á Suðurnesjum hafði afskipti af um helgina reyndist vera með kannabis og hníf í fórum sínum. Hann afsalaði sér hvoru tveggja til eyðingar.
Nokkrir ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur. Sá sem hraðast ók mældist á 150 km hraða á Reykjanesbraut þar sem hámarkshraði er 90 km. Skráningarnúmer voru fjarlægð af fimm bifreiðum sem ýmist voru ótryggðar eða óskoðaðar. Höfð voru afskipti af ökumönnum sem óku án réttinda og hafði einn þeirra verið stöðvaður áður af sömu sökum.
Gult óvissustig var sett í gang á Keflavíkurflugvelli um helgina þegar bresk herflugvél sendi neyðarboð vegna bilunar í hreyfli. Níu manns voru um borð. Vélinni var lent heilu og höldnu.