Lögbann á nafn Icelandair Hotel
Lögbannsbeiðni Hótel Keflavík gegn Flughóteli og Icelandairhotels var tekin fyrir síðastliðinn föstudag hjá Sýslumanninum í Hafnarfirði þar sem báðum aðilum var gert kleift að koma sínum forsendum á framfæri. Eftir málflutning beggja aðila féllst Sýslumaður á kröfu og beiðni Hótel Keflavík og samþykkti lögbann á nýtt nafn Flughótels sem tók strax gildi og hótelinu þar með gert að taka niður skilti hótelsins og fjarlægja nafnið Icelandair Hotel Keflavik af heimasíðu og annars staðar á netinu. Í framhaldi mun Hótel Keflavík höfða staðfestingarmál fyrir dómstólum en sú afgreiðsla getur tekið 4- 8 mánuði.
Að sögn Steinþórs Jónssonar hótelstjóra á Hótel Keflavík kom niðurstaðan ekki á óvart en ítrekaði að en væri síðara stig málsins framundan. „Þetta er leiðinlegt mál og hefði ég mjög gjarnan viljað vera laus við málið í heild sinni. Það er von mín að fulltrúar Icelandair hótela sjái að sér eftir þennan úrskurð og við getum haldið áfram góðu samstarfi eins og hingað til. Málarekstur milli samstarfsaðila skaðar alltaf og betra fyrir báða aðila sem og ferðaþjónustuna á Suðurnesjum að þetta klárist sem allra fyrst,“ sagði Steinþór í samtali við Víkurfréttir.