Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins við Ísland hefst að nýju
	Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins við Ísland er að hefjast að nýju með komu flugsveitar ítalska flughersins. Alls munu um 140 liðsmenn flughersins taka þátt í verkefninu auk starfsmanna frá stjórnstöð NATO í Uedem, Þýskalandi (Combined Air Operations Center). Flugsveitin kemur til landsins með fjórar Eurofighter Typhoon F-2000 orrustuþotur.
	Gera má ráð fyrir aðflugsæfingum að varaflugvöllum á Akureyri og Egilsstöðum á tímabilinu 6. til 12. september.
	Verkefnið verður framkvæmt með sama fyrirkomulagi og fyrri ár og í samræmi við loftrýmisgæsluáætlun NATO fyrir Ísland. Flugsveitin verður staðsett á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.  Ráðgert er að verkefninu ljúki í byrjun október.
	Landhelgisgæsla Íslands sinnir framkvæmd verkefnisins samkvæmt samningi sem gerður var við utanríkisráðuneytið á grundvelli varnarmálalaga nr. 34/2008. Að auki er verkefnið unnið í samvinnu við Isavia.
				
	
				

 
	
				


 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				