LOÐNUSKIP STRANDAR VIÐ GRINDAVÍK
Loðnuskipið Sveinn Benediktsson SU 77 strandaði í innsiglingunni til Grindavíkur um kl. 02 í nótt. Ágætis veður var þegar atburðurinn átti sér stað, vindhraði um 5 metrar á sekúndur.Björgunarsveitin Þorbjörn var kölluð út og fóru þeir að skipinu á björgunarskipinu Oddi V. Gíslasyni. Skipverjum á loðnuskipinu tókst hins vegar að losa sig eftir um hálftíma á strandstað. Kafari sveitarinnar skoðaði botn skipsins og sagði hann nokkuðu dældaðan og hnefastórt gat kom á olíutank. Tókst að koma í veg fyrir lekann á um klukkustund og koma þannig í veg fyrir að mikið magn olíu læki í höfnina í Grindavík. Nú er unnið að því að dæla olíu af skipinu.Ástæður þess að skipið strandaði eru ekki ljósar. Skipið var á útleið eftir að hafa komið með stærsta loðnufarm sem komið hefur til Grindavíkur, rúm 1200 tonn.