Ljósmyndasýningin Spegill þjóðar í Fræðasetrinu í Sandgerði
Sýningin „Spegill þjóðar“ með ljósmyndum fréttaritara Morgunblaðsins, hefur verið sett upp í Sandgerði. Sýningin er í sal á neðri hæð Fræðasetursins og er opin á opnunartíma setursins, framundir mánaðamót.
Á sýningunni eru 26 ljósmyndir, verðlaunamyndir úr ljósmyndasamkeppni sem Morgunblaðið efndi til meðal fréttaritara sinna á landsbyggðinni.
Á sýningunni eru meðal annars tvær myndir eftir Reyni Sveinsson, fréttaritara í Sandgerði. Önnur er frá strandi Wilson Muuga við Hvalsneskirkju en hin var tekin eftir lokaleik Knattspyrnufélagsins Reynis í sumar þegar formaður knattspyrnudeildarinnar efndi loforð sitt um að fara ber hring um völlinn.
Sýningin var fyrst sett upp í verslunarmiðstöðinni Smáralind og verður sett upp á nokkrum stöðum á landsbyggðinni. Sandgerði er fyrsti viðkomustaður hennar utan höfuðborgarinnar.
Í Fræðasetrinu stendur nú yfir sýningin „Heimskautin heilla“, til heiðurs heimskautafaranum Jean Baptiste Charcot og afrekum hans á vísindasviðinu.
Mynd: Morgunblaðið/Helgi Bjarnason: Frá sýningunni í Fræðasetrinu