Ljósmynda alla jörðina daglega með gervitunglum frá Ásbrú
- ÍAV þjónustar 144 gervitungl og jarðstöð
Eldflaug sem skotið var upp frá Indlandi um miðjan mánuðinn, og innihélt 103 gervitungl, hefur sterka tengingu við Reykjanesbæ. Grannt var fylgst með geimskotinu í Reykjanesbæ.
Á Ásbrú er starfrækt jarðstöð af fyrirtækinu Planet Labs sem átti 88 af þeim gervitunglum sem voru í geimflauginni. Skotið gekk vel og eru öll þessi gervitungl komin á sporbaug um jörðu. Aldrei fyrr hafa fleiri gervitungl farið á loft í einu skoti og er þetta heimsmet í þeim efnum.
Fyrir átti Planet Labs 56 gervitungl á sporbaug en með þessari viðbót eru þau komin í 144 og gera það að verkum að nú er hægt að ljósmynda alla jörðina með nokkurri nákvæmni daglega. Gervitunglin mynda keðju umhverfis jörðina og með snúningi sínum og snúningi jarðar ná þau að mynda alla jörðina einu sinni á sólarhring en hvert gervitungl nær að mynda landsvæði sem er 20 sinnum stærra en Ísland á hverjum sólarhring.
Þessi gervitungl eru um það bil 90 mínútur að fara hringinn umhverfis jörðina og eru þau með 28 megapixla myndavél með öflugri linsu innanborðs. Þegar gervitunglin þjóta fram hjá Íslandi í um 500 kílómetra hæð senda þau frá sér myndirnar sem gervihnattamóttakararnir safna saman og senda áfram um netsambönd til höfuðstöðva Planet Labs í Bandaríkjunum.
Planet Labs er með móttökustöðvar á nokkrum stöðum víða um heim en stöðin hér á Ásbrú er sú stærsta hjá þeim og er hún nú þegar búin að hafa samskipti við öll nýju gervitunglin en hvert um sig er aðeins um 4 kíló og á stærð við venjulegt heimilisbrauð. Eftir að gervitunglunum var sleppt úr geimflauginni sá jarðstöðin á Ásbrú um að hlaða upp stýrikerfi á gervitunglin og raða þeim upp á himinhvolfið.
ÍAV og Planet Labs eru með þjónustusamning og sér ÍAV um þjónustu og rekstur á jarðstöðinni sem er staðsett á Smiðjutröð 13-15 á Ásbrú.
Í veturbyrjun árið 2015 hóf ÍAV framkvæmdir á Smiðjutröð 13 og 15 á Ásbrú fyrir Planet Labs. ÍAV sá um alla framkvæmdina sem gekk vel þrátt fyrir rysjótt veður. Sökklar fyrir diskana voru steyptir upp og lagnir settar í jörðu. Fyrir um ári síðan komu svo diskarnir en á svæði Planet Labs eru sex gervihnattamóttakarar, fjórir þeirra eru veðurþolnir en tveir eru inni í stórum hvítum kúlum sem verja þá fyrir veðri. Þá eru á svæðinu nokkur önnur stefnuvirk loftnet og mannvirki með stjórnbúnaði.
Jarðstöðinni er fjarstýrt frá Bandaríkjunum en rafvirkjar frá ÍAV sinna þó ýmissi þjónustu við búnaðinn á Ásbrú og eru með fjarstýrðar hendur á svæðinu, eins og þeir segja sjálfir.
Fjallað er um jarðstöðina í Suðurnesjamagasíni Víkurfrétta á sjónvarpsstöðinni Hringbraut, þar sem rætt er við Einar Ragnarsson, verkefnisstjóra hjá ÍAV um þetta áhugaverða verkefni.