Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ljósanótt sett á boxkeppni
Fimmtudagur 4. september 2003 kl. 13:40

Ljósanótt sett á boxkeppni

-Spennandi boxkeppni við frændur vora Dani
Í kvöld verður Ljósanótt formlega sett á hnefaleikakeppni sem fram fer í Íþróttahúsinu í Keflavík, en það er Steinþór Jónsson formaður Ljósanæturnefndar sem setur hátíðina. Búast má við hörkukeppni þar sem Hnefaleikafélag Reykjaness mætir 9 manna boxliði frá Naskskov í Danmörku, en skærustu stjörn- urnar í hnefaleikum í Danmörku og á Íslandi leiða þar saman hesta sína. Á dagskrá er einnig kvenna- og unglingakeppni og fjöldi skemmtiatriða verður einnig á dagskrá.
Guðjón Vilhelm hnefaleikaþjálfari og forsvarsmaður Hnefaleikafélags Reykjaness segir að kvöldið verði spennandi. „Ég á von á svaka kvöldi. Það eru nokkrir bardagar sem ég er mjög spenntur fyrir og þar ber helst að nefna Doddy, en hann tekur á móti strák sem var að vinna silfur á skandinavísku meistaramóti sem fram fór í Finnlandi. Það verður fróðlegt að sjá hvort Doddy eigi virkilega möguleika í þá bestu í Evrópu, en við teljum að hann eigi fullt erindi í þá,” segir Guðjón, en Skúli Steinn Vilbergsson mætir strák frá Danmörku sem er með 45 bardaga. „Skúli er sjálfur með 5 bardaga og það er ljóst að um hörkukeppni verður að ræða. Danirnir hafa séð myndbönd af okkar boxurum og þeir vita nákvæmlega hvað þeir þurfa að koma með sterkt lið,” segir Guðjón og bætir því við að Danirnir hafi gefið það út að íslenska stjarnan verði felld í kvöld.
Einn bardagi getur þó allt eins orðið bardagi kvöldsins að sögn Guðjóns. „Þar verður Grindvíkingur sem heitir Tommi í aðalhlutverki en hann er að gera frábæra hluti. Hann er að mínu mati eitt mesta þungavigtarboxefni á Íslandi.”
Hnefaleikafélag Reykjaness hefur verið töluvert í sviðsljósinu og er ljóst að félagið stendur framarlega í útbreiðslu Ólympískra hnefaleika á Íslandi og segist Guðjón fá mikinn stuðning. „Reykjanesbær er fremstur hvað boxáhuga varðar og viðleitni gagnvart íþróttinni er frábær. Ef ég ætti að velja einn stað í Evrópu þá myndi ég velja Reykjanesbæ til að koma af stað boxklúbbi,” segir Guðjón, en hann lofar skemmtilegu kvöldi. „Kvöldið verður frábært því að um hátíðardagskrá verður að ræða. Dagskráin hefst með ávarpi formanns Ljósanæturnefndar þar sem Ljósanótt 2003 verður formlega sett. Íþróttahúsið verður skreytt skemmtilega. Ási rappari úr Njarðvík tekur lagið og eldgleypar verða á staðnum, ásamt fleiri atriðum,” segir Guðjón og hann lofar góðri skemmtun í kvöld.


VF-ljósmynd: Skúli Steinn Vilbergsson í hringnum, en hann berst við einn danann í kvöld.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024