Ljósanótt í Reykjanesbæ sett
Ljósanótt fór formlega af stað í dag með setningu fjölmenningarhátíðar. Nemendur úr grunnskólum Reykjanesbæjar voru samankomnir utan við Myllubakkaskóla þar sem Árni Sigfússon bæjarstjóri setti hátíðina og af því tilefni slepptu grunnskólanemendurnir hundruðum blaðra sem svifu upp í loftið. Steinþór Jónsson formaður Ljósanæturnefndar bauð gesti velkomna og kynnti tónlistaratriði. Rússneski harmonikkuleikarinn German Hlopin spilaði ásamt tveimur nemendum úr Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Trumbuleikarinn Akim spilaði á trommur um leið og blöðrunum var sleppt.
Ljósanóttin sem nú fer í hönd er sú fimmta í röðinni og er búist við tugþúsundum gesta til Reykjanesbæjar um helgina. Hátíðin stendur frá fimmtudegi til sunnudags og eru atriði tengd Ljósanótt um eitt hundrað talsins.
Það verður nóg um að vera í tengslum við Ljósanótt í dag og kvöld en klukkan 14:00 hefst púttmót á púttvellinum við Mánagötu og eru verðlaun í boði Toyotaumboðsins. Klukkan 13:00 hófst sýning í Svarta Pakkhúsinu og klukkan 17:00 veitir Félagsþjónustan viðurkenningar fyrir fjölskylduvænstu fyrirtækin í Reykjanesbæ, en athöfnin fer fram í Gryfjunni í DUUS-húsum.
Klukkan 18:00 verður sýning Jóhanns G. Jóhannssonar í Kaffitári opnuð og klukkan 19:00 verður myndlistarsýning systranna Gunnhildar og Brynhildar opnuð í Fischershúsi.
Hagyrðingakvöld verður haldið í Stapa þar sem landsins snjöllustu hagyrðingar leiða saman hesta sína. Stjórnandi hagyrðingakvöldsins er Karl Ágúst Úlfsson og verður hafist handa klukkan 20:00.
Í Frumleikhúsinu verður Vodkakúrinn forsýndur en það eru Helga Braga Jónsdóttir og Steinn Ármann Magnússon sem fara þar með aðalhlutverk. Sýningin hefst klukkan 20:00.
Frá klukkan 22:00 til 24:00 verður Megasukk á veitingahúsinu Ránni þar sem Megas og Súkkat munu spila á vegum RNB félagsins. Hin Keflvíska gleðisveit Breiðbandið mun hita upp fyrir Megasukkið.