Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ljósanótt í plús
Fimmtudagur 5. desember 2002 kl. 15:50

Ljósanótt í plús

Hagnaður af Ljósanótt 2002 er rúmar 18 þúsund krónur og var beinn kostnaður ljósanefndar vegna hátíðarinnar tæp ein og hálf milljón sem var framlag Reykjanesbæjar. Steinþór Jónsson, forvígismaður og formaður ljósanefndar sagði í samtali við Víkurfréttir að hann og nefndin öll væri gríðarlega ánægð með árangurinn: „Í ár var Ljósanæturdögum fjölgað, koma Íslendings kom inn í hátíðina og í fyrsta sinn var Ljósalagið haldið þannig að við erum mjög ánægð með útkomuna,“ segir Steinþór. Bein framlög frá fyrirtækjum og einstaklingum voru á aðra milljón króna: „Auk þess voru óbein framlög og sjálfboðavinna mjög mikil. Gera má ráð fyrir að heildarkostnaður vegna Ljósanætur, þ.e. með öllum viðburðum sé rúmlega sex milljónir króna,“ segir Steinþór og bætir við að Ljósahátíðin byggist á velvilja Reykjanesbæjar, fyrirtækja og einstaklinga. Steinþór segir að í ljósi reynslunar verði fyrirkomulag hátíðarinnar með svipuðu sniði á næsta ári: „Það er ljóst að Ljósanefndin mun leggja til að hátíðin á næsta ári nái frá fimmtudegi til sunnudags með hápunkti á laugardeginum. Fjölgun daga er nauðsynleg til að tímafrekari uppákomur dreifist á jaðardaga auk þess að tryggja fjölmörgum einstaklingum sem vinna við hátíðina s.s. verslunarfólki, skemmtikröftum og fl. að fá tækifæri til að taka þátt og upplifa menningu í bæjarfélaginu. Áhersla verður því lögð á að styrkja dagskrá viðkomandi daga en ekki fjölga dögum frekar. Ljósanefndin vill að lokum koma á þakklæti til allra þeirra fjölmörgu sem komu að Ljósanótt 2002 og hvetur bæjarbúa til að hefjast þegar handa við að undirbúa hátíðina okkar fyrir næsta ár en hún verður næst haldin frá 4. til 7. september með hápunkti á laugardeginum 6. september 2003,“ segir Steinþór að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024