Ljósanótt ekki haldin án öflugs stuðnings
Ljósanótt verður sett í 20. sinn kl. 16:30 miðvikudaginn 4. september í skrúðgarðinum við Suðurgötu. Þar með byrjar stórkostleg menningar- og fjölskylduhátíð með yfir 150 viðburði víðsvegar um bæinn. Þetta væri ekki hægt nema með framkvæmdagleði og metnaði bæjarbúa og þeirra tryggu stuðningsaðila sem fjármagna hátíðina að stórum hluta.
Eftir þrotlausan undirbúning síðustu vikna og mánaða getum við nú farið að njóta. Undir lok ágúst var skrifað undir samninga við stærstu styrktaraðila hátíðarinnar í Ráðhúsi. Þeir eru Landsbankinn, Isavia, Lagardère, Securitas, Skólamatur og Nettó. Auk þeirra reiðum við okkur á stuðning traustra bakhjarla eins og Kadeco, Byggingarfélags Gylfa og Gunnars, Icelandair, HS Veitna, Bus4u, Eykt, Arkís, og Ferðaþjónustu Reykjaness.
Aðstandendur Ljósanætur eru afar þakklátir fyrir stuðning þessarar fyrirtækja í gegnum árin, en án hans væri ekki möguleiki að halda Ljósanótt með eins glæsilegum hætti og raunin er. Þessi fyrirtæki eru meðvituð um það að jákvæð ímynd bæjarins skipti máli fyrir þá sem í bænum starfa.Einnig að jákvæð ímynd hafi áhrif á aðgang þeirra að góðu vinnuafli á þann hér vilji búa og starfa öflugt fólk. Þannig sé það sameiginlegt verkefni bæjarins og fyrirtækja sem þar starfa að styðja við jákvæð verkefni og jákvæða ímyndarsköpun á svæðinu.
Öll þessi fyrirtæki auk fleiri góðra aðila sem láta sitt ekki eftir liggja eru sýnileg á hátíðarsvæðinu. Ég hvet bæjarbúa og gesti Ljósanætur til að veita fánum þeirra og merkjum athygli, því hátíðin verður ekki haldin án þeirra.
Gleðilega Ljósanótt!
Sigurgestur Guðlaugsson
Verkefnastjóri viðskiptaþróunar hjá Reykjanesbæ