Litlir og óvanir vegfarendur á ferðinni
Það er ástæða til að minna ökumenn á alla þá nýju þátttakendur sem nú eru í umferðinni víða um land. Þarna er átt við yngstu börnin sem eru mörg hver á gangi til og frá skóla. Það er mikilvægt að ökumenn takmarki hraða í íbúðahverfum og við skóla en einnig þarf að taka tillit til þess að barnið skynjar umhverfi sitt á annan hátt en fullorðin. Hraða ökutækis og fjarlægð skynjar barnið á annan hátt en fullorðið fólk og þess vegna getur það tekið rangar og hættulegar ákvarðanir. Ökumenn þurfa því að vera með fulla athygli við aksturinn og nánasta umhverfi sitt þannig að hægt sé að bregðast tímanlega við öllu óvæntu.
Meðfylgjandi myndir tók Hilmar Bragi við Myllubakkaskóla í Keflavík nú í morgun þar sem Jón Pétur Jónsson lögreglumaður fylgdi ungum vegfarendum yfir gangbraut við skólann.