Litla ljóta lirfan inn á öll heimili fyrir góðan málstað
Allsérstakur sumarglaðningur mun berast inn á hvert heimili á Íslandi fyrstu viku sumars. Um er að ræða DVD disk með teiknimyndinni Kötu – litlu lirfunni ljótu á alls sjö tungumálum. Skýringin á þessum sumarglaðningi er sú að Umhyggja – félag til styrktar langveikum börnum og UNICEF Ísland hafa tekið höndum saman, í samvinnu við CAOZ hf., um átak til styrktar starfsemi samtakanna og til góðs fyrir börn, bæði á Íslandi og um heim allan. Slagorð styrktarátaksins er: „Sumar gjafir skipta öll börn máli – Sumargjöf Umhyggju og UNICEF“. Með disknum fylgir gíróseðill að upphæð 2.000 krónur þar sem viðtakanda gefst tækifæri til að styrkja gott málefni. Dreifing diskanna mun standa yfir dagana 22. apríl til 5. maí nk.
Þessi útgáfa af teiknimyndinni Litlu lirfunni ljótu er stærsta upplag sem dreift hefur verið af nokkurri mynd á Íslandi en hún verður send inn á 105.000 heimili til styrktar Umhyggju og UNICEF Ísland. Myndin, sem er fyrsta íslenska tölvugerða teiknimyndin, sló í gegn þegar hún var frumsýnd árið 2002 og hefur unnið til fjölda verðlauna og hlotið margar viðurkenningar. Útgáfa teiknimyndarinnar, sem er sérstaklega unnin fyrir þetta átak, er talsett á 7 tungumálum, íslensku, dönsku, norsku, sænsku, finnsku, frönsku og ensku. Ásamt myndinni er á disknum heimildarmynd um gerð hennar en þess má geta að íslenska útgáfa myndarinnar er einnig með hljóðrás fyrir heimabíókerfi.
Hagnaður átaksins er áætlaður 45% af tekjum þess og rennur hagnaðurinn beint til Umhyggju og UNICEF sem skipta honum bróðurlega á milli sín. Eftir því sem fleiri heimili kaupa diskinn eykst hagnaður samtakanna.
Umhyggja mun annars vegar nota þá fjármuni sem félaginu falla í skaut til að efla Styrktarsjóð félagsins en hlutverk Styrktarsjóðs Umhyggju er að styrkja langveik börn og fjölskyldur þeirra sem lent hafa í verulegum fjárhagserfiðleikum. Hins vegar mun Umhyggja fjármagna stöðugildi sérfræðings sem veitir fjölskyldum langveikra barna sálfélagslegan stuðning.
UNICEF mun nota sinn hluta ágóðans til frekari eflingar á starfi sínu hér á landi og til að afla fjár til verkefna UNICEF um heim allan. Meðal verkefna sem UNICEF vinnur að í þróunarlöndunum er að sjá til þess að ungabörn fái nauðsynlega næringu og umhyggju, að veita börnum góða grunnmenntun og lífsnauðsynlegar bólusetningar og bætiefni.
Mörg af stærstu fyrirtækjum landsins styðja átakið: Íslandspóstur, 365 ljósvaka- og prentmiðlar, Jónar Transport, Actavis og Landsbanki Íslands, sem er fjárhagslegur bakhjarl og umsjónaraðili átaksins.
Nánari upplýsingar um Umhyggju og UNICEF Ísland:
www.umhyggja.is
www.unicef.is
Myndir - Efri: litla ljóta lifran. Neðri: Gámurinn með DVD diskunum, á gámnum stendur; "Í þessum gámi eru 105.000 lifrur á leiði inn á öll heimili"