Lítil stúlka og ökumaður beinbrotnuðu
Ökumaður fiskflutningabifreiðar ristarbrotnaði í vikunni þegar hann varð fyrir lyftara í Grindavík. Atvikið varð með þeim hætti að ökumaðurinn fór út úr bifreiðinni og gekk fyrir framhorn hennar. Í sömu svipan bar lyftarann að og varð maðurinn fyrir honum. Hann féll til jarðar og var síðan fluttur með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem gert var að meiðslum hans.
Þá úlnliðsbrotnaði lítil stúlka þegar hún hjólaði á bifreið sem var í akstri. Auk úlnliðsbrotsins bólgnaði hún í andliti og fékk sár á hökuna við höggið. Hún var einnig flutt undir læknis hendur á HSS.