Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Lítil kjörsókn áhyggjuefni
Föstudagur 28. maí 2010 kl. 15:32

Lítil kjörsókn áhyggjuefni


Jóhann Geirdal leiddi lista í sex kosningum í Keflavík eða yfir 24 ára tímabil. Í tveimur þeirra náði hann ekki inn þannig að hann sat samtals í 16 ár í bæjarstjórn fyrir Alþýðubandalagið, Bæjarmálafélagið og síðar Samfylkinguna. VF innti Jóhann eftir því hvaða tilfinningu hann hefði fyrir kosningunum í Reykjanesbæ á morgun.

„Almennt um kosningarnar núna, ekki bara hér í Reykjanesbæ heldur almennt, þá finnst mér mest ástæða til að óttast litla þátttöku.  Það þykir mér mjög slæmt því einmitt á tímum sem þessum er mikilvægt að fólk taki afstöðu. Samkvæmt skoðanakönnunum hringinn í kringum landið eru mjög margir kjósendur óákveðnir. Maður heyrir á fólki að það sé óánægt og velti því fyrir sér hvort það eigi nokkuð að kjósa. Við sjáum hvað Besti flokkurinn fær í Reykjavík. Þetta eru allt vísbendingar um að fólk hafi gefist upp á pólitíkinni. Það er mjög sorglegt vegna þess að það þarf jú alltaf einhverja til að stjórna sveitarfélaginu.  Við erum ábyrg fyrir því hverjir fá að gera það með því að kjósa á fjögurra ára fresti og þetta er réttur sem við verðum að nýta okkur. Og við erum auðvitað að bregðast samfélaginu ef við tökum ekki þátt í því,“ segir Jóhann Geirdal.

„Svo er hægt að velta vöngum yfir því hverjir græða á lélegri kjörsókn,“ bætir Jóhann við. „Það eru auðvitað mismunandi sjónarmið í því. Sumir álíta að þeir flokkar sem sitja að völdum hagnist á því vegna þess að það styrki ekki þá flokka sem keppi við þá.  Ef einhver er óánægður með þann flokk sem hann hefur stutt þá er það ekki nema hálft skref að fara ekki á kjörstað. Þess vegna finnst mér að fólk eigi að taka afstöðu, hver svo sem hún er. Út frá sjónarmiðum lýðræðis finnst mér það mikilvægt, svona almennt talað,“ segir Jóhann.

-En hvernig metur þú stöðuna í Reykjanesbæ?

„Mér finnst að það sé tekið að fjara undan sjálfstæðismönnum. Það er greinilegt að þeir verða sjálfir varir við það og tala lítið orðið um flokkinn heldur bara lista Árna Sigfússonar eins og Sjálfstæðisflokkurinn sé ekkert að bjóða fram lengur. Það er nokkuð athyglisvert þegar flokkur fer í felur.
Af gamalli reynslu hygg ég að ef Sjálfstæðisflokkurinn fær ekki nema fimm menn fari Framsóknarflokkurinn uppí með þeim en þannig hefur það verið hingað til.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Mynd - Jóhann Geirdal, fyrrum bæjarfulltrúi í Keflavík/ Reykjanesbæ.