Lítið kaffihús á fjórum hæðum
- Í gamla vitanum á Garðskaga
„Hér er einhver orka og kraftur sem fyllir mann bjartsýni eins og sést á öllu því fólki sem kemur hingað aftur og aftur,“ segir Jóhann Ísberg hjá félaginu Garðskaga sem undirbýr opnun á kaffihúsi í gamla vitanum á Garðskaga. Búið er að gera vitann upp, setja í hann gólf og rafmagn. Jóhann segir að vissulega verði kaffihúsið ekki mjög stórt, en að það verði á fjórum hæðum. Stórkostlegt útsýnið muni svo ekki svíkja neinn.
Félagið Garðskagi hefur tekið húsin á Garðskaga á leigu. Búið er að mála og endurbæta nýja vitann sömuleiðis. Á dagskránni eru svo þrjár sýningar þar; norðurljósasýning, hvalasýning og vitasýning. Búið er að lagfæra og stækka veitingastaðinn á Garðskaga. „Í framtíðinni mun svo verða sett upp norðurljósasafn á Garðskaga og þar er auðvitað líka byggðasafnið sem búið er að byggja upp með myndugleik í mörg ár,“ segir Jóhann.
Að sögn Jóhanns hófst sveitarstjórnin handa við stefnumótun á Garðskagavita fyrir um tveimur árum og kom hugmyndin að starfseminni sem nú er að hefjast úr þeirri vinnu. Jóhann kveðst bjartsýnn á að þegar þjónustan á Garðskaga verði bætt með þessum hætti muni ferðaþjónustuaðilar sækja þangað í enn meiri mæli. „Við vonumst auðvitað eftir því að hingað komi líka Garðmenn og Suðurnesjamenn. Þjónustan er ekki síður fyrir Íslendinga en útlendinga.“
Jóhann er ekki úr Garði en segir svæðið vera paradís. „Þetta er einstakur staður. Hér er gul sandströnd og hefðbundin grjótströnd. Það er friðsælt hérna svo margir sækja hingað.“ Hans tilfinning er sú að fólk í Garðinum sé almennt ánægt með að líf sé að færast í vitana enda hafi sá gamli lengi verið í niðurníðslu. „Vonandi tekst okkur að gera þetta þannig að það verði staðnum til sóma og að íbúarnir verði ánægðir.“
Vinsælt er að skoða norðurljósin á Garðskaga og er ætlunin að bjóða upp á þjónustu allan ársins hring. Jóhann óttast ekki dræma aðsókn yfir kaldasta vetrartímann. „Við erum við flugvöllinn, við hliðið að Íslandi. Ef ekki er hægt að fá til okkar ferðamenn yfir veturinn, þá veit ég ekki hvenær það er hægt.“ Jóhann segir alls ekki eins hvasst á Suðurnesjum og hann hafði heyrt, enda hafi góðviðrisdagarnir í vor og sumarbyrjun verið margir.