Lions gefur til líknarmála
-Æsa gefur steyptan bekk og dýnur
Lionsklúbburinn Æsa afhenti gjafir til líknarmála í síðustu viku. Afhendingin fór fram fyrir framan Ytri-Njarðvíkurkirkju þar sem klúbburinn var með blómasölu. Allur ágóði sölunnar mun renna til líknarmála. Ágústa Guðmundsdóttir, gjaldkeri sóknarnefndar Njarðvíkurkirkju, tók við gjafabréfi fyrir steyptum bekk sem komið verður fyrir í kirkjugarðinum í Innri-Njarðvík. Þórunn Benediktsdóttir hjúkrunarforstjóri og Bryndís Sævarsdóttir yfirhjúkrunarfræðingur hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja tóku við gjafabréfi fyrir tvær sérstakar dýnur fyrir langlegu sjúklinga. Það voru þær Brynja Vigdís Þorsteinsdóttir, formaður Líknarnefndar klúbbsins, og Halldóra Halldórsdóttir, formaður klúbbsins, sem afhentu gjafabréfin.