Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mánudagur 22. maí 2000 kl. 15:35

Lionessur í Keflavík gjafmildar

Lionessuklúbbur Keflavíkur afhentu margar góðar gjafir fyrir nokkru. Þær færðu Þroskahjálp Suðurnesja 300 þúsund krónur til framkvæmda á þjálfunarsundlaug og Lyngsel, sem er skammtímavistun fyrir fatlaða, fékk 100 þúsund krónur að gjöf. Marita á Íslandi, sem eru forvarnarsamtök, fékk einnig 100 þúsund krónur frá lionessum.Gísli Jóhannsson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar sagði að þetta væri ekki fyrsta sinn sem lionessur færðu þeim góðar gjafir. „Ég vil þakka Lionessuklúbbi Keflavíkur kærlega fyrir höfðinglega gjöf og hún kemur örugglega til með að nýtast vel. Okkur þykir gott til þess að vita að við eigum góða klúbba og einstaklinga sem hjálpa okkur við að byggja þessa laug því enn eru eftir 6 milljónir krónar til að við getum lokið byggingu hennar. Við ætlum að halda áfram með verkið og reyna að klára sundlaugina á þessu ári og vonandi verður hægt að greiða hana niður með styrkjum, sem við vonumst til að fá“, sagði Gísli af þessu tilefni. Kolbrún Marelsdóttir, forstöðumaður Lyngsels, sagði að peningarnir færu í kaup á leikföngum og tækjum fyrir börnin. „Þetta er algjör bylting fyrir okkur hér því við fáum sjaldan peninga til að kaupa leikföng og tæki. Við erum mjög ánægð með þessa góðu gjöf og viljum senda lionessum kærar þakkir“, sagði Kolbrún en hún vildi líka koma því á framfæri að þau á Lyngseli væru að fara af stað með tónlistarbekk og vantaði stóra hátalara. „Ég vil biðja þá sem eiga slíka hátalara, og vilja gefa Lyngseli þá, að hafa samband við mig í síma 895-7892“, sagði Kolbrún forstöðukona að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024