Línubátar landa fyrir austan
 Um 400 tonn bárust á land í Grindavík í síðustu viku og sem fyrr var afli togskipanna skástur. Þuríður Halldórsdóttir með mestan afla 72,1 tonn.
Um 400 tonn bárust á land í Grindavík í síðustu viku og sem fyrr var afli togskipanna skástur. Þuríður Halldórsdóttir með mestan afla 72,1 tonn. Að sögn Sverris Vilbergssonar, hafnarstjóra í Grindavík hafa línubátarnir landað mikið fyrir austan að undanförnu og koma heim annan til þriðja hvern túr. Einn þeirra landaði í síðustu viku, Sighvatur sem var með 73 tonn eftir viku á veiðum.
„Nokkrir af minni línubátunum réru í vikunni og var afli misjafn. Hópsnes fékk 13,2 tonn í fjórum róðrum og Mónika 10 tonn í þremur róðrum og var um helmingur aflans ýsa. Netabátar fá varla bein úr sjó sem sést best á því að sjö netabátar lönduðu 15,4 tonnum og var Eldhamar með mestan afla 10,3 tonn. Engin síld hefur borist hingað enn sem komið er og vonandi fer að verða breyting á því“, segir Sverrir.



 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				