Línubátar í Grindavík gera það gott
Ágætisveiði hefur verið hjá línubátum í Grindavík að undanförnu. Hafa þeir verið að leggja tvær lagnir og koma með fullfermi í land. „Þorbjarnarbátarnir hafa verið að koma 40 til 50 tonn úr hverjum róðri og það er bara þeirra skammtur,“ segir Grétar Sigurðsson vigtarmaður á Grindavíkurhöfn.
Frekar dræm veiði hefur verið hjá netabátum í Grindavík enda fáir netabátar á sjó að sögn Grétars. „Núna eru flestir smábátarnir í landi enda töluverð hreyfing þarna úti. Ætli það megi ekki kalla það brælu,“ segir Grétar en frystiveiðiskipið Hrafn Sveinbjarnarson landar í Grindavík á föstudag eftir rúmlega hálfsmánaðar túr.
Myndin: Úr myndasafni VF.is.