Lindex styrkir Heilavernd um 400 þúsund
-10% af íbúum Suðurnesja mættu á opnunina í Krossmóa
Verslunarkeðjan Lindex opnaði í Krossmóa síðastliðinn laugardag en ákveðið var að 10% af andvirði sölu opnunardagsins rynni til Heilaverndar, en starfsfólk Lindex í Krossmóa valdi styrkþegann. Styrkurinn verður afhendur í vikunni en á opnuninni náðist að safna 400 þúsund krónum til styrktar félagsins.
Heilavernd er félag sem stofnað var árið 1986 af aðstandendum fólks með arfgenga heilablæðingu. Félagið safnar fé til að styrkja rannsóknir á arfgengri heilablæðingu, en um er að ræða sér íslenskan erfðasjúkdóm.
Albert Magnússon, eigandi Lindex á Íslandi, sagði í samtali við Víkurfréttir að að opnunin hefði farið langt fram úr væntingum. „Um 2.500 manns mættu við opnun Lindex í Krossmóa, en það er um 10% af íbúum Suðurnesja. Það er eitthvað sem við getum ekki verið annað en þakklát fyrir.“