Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Lindex opnar í Reykjanesbæ
  • Lindex opnar í Reykjanesbæ
    Krossmói í Reykjanesbæ. VF-mynd: Hilmar Bragi
Þriðjudagur 14. mars 2017 kl. 09:18

Lindex opnar í Reykjanesbæ

- opnar 330 fermetra verslun í Krossmóa í ágúst

Forráðamenn Lindex á Íslandi hafa ákveðið að opna nýja glæsilega 330 fermetra verslun í Krossmóa í Reykjanesbæ. Fyrirhuguð opnun verður 12. ágúst nk. Samningar þess efnis hafa verið undirritaðir milli Urtusteins fasteignafélags og forráðamanna Lindex. Lindex er ein stærsta tískufatakeðja Norður Evrópu með um 500 verslanir í 16 löndum. Lindex býður upp á tískufatnað fyrir konur, undirföt, snyrtivörur og fylgihluti, sem og fatnað fyrir börn og unglinga á hagkvæmu verði. Gera má ráð fyrir að um 6-8 störf skapist hjá Lindex við nýju verslunina í Krossmóa.
 
Verslunin, sem staðsett er í aðalinngangi verslunarmiðstöðvarinnar, mun bjóða allar þrjár meginvörulínur Lindex. Í fyrirtækinu starfa um 40 hönnuðir sem hafa verið í samstarfi við þekkta hönnuði á borð við Missoni og Jean Paul Gaultier auk þess sem stjörnurnar Gwyneth Paltrow, Penelope Cruz og Kate Hudson hafa unnið með fyrirtækinu við vorlínur undanfarinna ára.
 
„Við erum mjög ánægðir með þennan samning og teljum að það felist í því mikil viðurkenning fyrir Krossmóa að Lindex velji það fyrir sína næstu verslun. Verslunarmiðstöðin Krossmói er afar vel staðsett og þar á verslun án efa eftir að aukast á komandi misserum,“ segir Skúli Skúlason, framkvæmdastjóri Urtusteins fasteignafélags.
 
„Við teljum það vera einstaklega jákvætt að geta nú komið á Suðurnesin þar sem er mikill uppgangur og öflugt samfélag. Við erum þakklát fyrir hversu vel hefur tekist til með staðsetningu og hlökkum mikið til að bjóða okkar viðskiptavinum á Suðurnesjum upp á tískuupplifun á heimsmælikvarða,“ segir Lóa D. Kristjánsdóttir, umboðsaðili Lindex á Íslandi. Lindex rekur í dag þrjár verslanir á Íslandi, í Smáralind, Kringlunni og á Glerártorgi á Akureyri.
 
Nýja verslunin í Krossmóa verður byggð upp með nýrri innréttingahönnun Lindex sem leit dagsins ljós fyrst við opnun í London. Hönnunin byggir á björtu yfirbragði, ólíkum litbrigðum hvítra lita og svartra auk viðar, sem gefur versluninni skandinavískt yfirbragð.
 
Krossmói er 10.000 fermetra verslunarmiðstöð en þar eru Nettó, Lyfja og Vínbúðin ásamt fleiri fyrirtækjum.

Á myndunum hér að neðan má sjá hvaða yfirbragð verður á nýju verslun Lindex í Reykjanesbæ.

 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024