Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Linda í Palóma veit ekki hvort, hvar eða hvenær hún geti opnað búðina
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 16. nóvember 2023 kl. 12:01

Linda í Palóma veit ekki hvort, hvar eða hvenær hún geti opnað búðina

„Ég veit ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér, ég gat sótt skartið í búðina í gær [mánudag] en veit ekki hvort ég get sótt fötin, ég veit eiginlega bara ekki neitt,“ segir Linda Gunnarsdóttir, eigandi tískufataverslunarinnar Palómu í Grindavík.

Hvernig ætlar Linda að hátta rekstri verslunarinnar næstu vikurnar. Verður Palóma opnuð utan Grindavíkur fyrir jólin? „Ég náði að skjótast heim í gær [mánudag] og gat sótt skartgripina í búðina en öll fötin og lagerinn er eftir. Ég veit ekki hvort eða hvenær ég næ að sækja það. Þó svo að við séum með góða netverslun verð ég að geta afhent vörurnar og veit ekkert hvar ég mun geta geymt lagerinn, ef ég fæ að sækja hann. Ég er nýbúin að panta vörur fyrir milljónir og hreinlega veit ekki hvernig þetta fer. Ég ætla samt að reyna vera sterk, það eru margir sem hafa það mun verr en ég og við verðum bara að vona það besta,“ segir Linda.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hún segir að ástandið hafi verið skelfilegt á föstudag þegar jarðskjálftarnir gengu yfir. „Það var búið að vera nudd allan daginn en um hálffjögur byrjaði fjörið. Ég var með konu inni í mátunarklefa og hún sagði einfaldlega; „hvað erum við að gera hér í Grindavík, við erum eitthvað ruglaðar.“ Þetta voru skjálftar sem voru á allt annarri stærðargráðu en ég hafði verið vön, það hristist allt, blómapottar fóru á hliðina og ég fór fljótlega að hugleiða að loka. Svo hringdi yngsti sonur minn í mig og sagði mér að allt væri komið á hvolf heima, ég var að afgreiða konu og nánast hreytti út úr mér „tíuþúsundogníuhundruð og bæ“ og rauk heim. Heyrði í Alexöndru tengdadóttur minni sem vinnur hjá mér og sagði að við værum að fara loka búðinni. Við náðum næstum því að vera með opið allan daginn en lokuðum svo korter í sex. Ég fór heim til elsta sonar míns og þar vorum við öll fjölskyldan saman. Við héldum að þetta myndi ganga yfir en fengum svo símhringingu kl. hálfellefu og okkur sagt að það ætti að rýma bæinn! Ég ætlaði varla að trúa því en við hentum því helsta ofan í tösku og drifum okkur Nesveginn sem liggur út á Reykjanes en á þeim tíma var búið að loka Grindavíkurveginum og Suðurstrandarvegurinn var um tíma líka lokaður en hann opnaði síðan. Foreldrar mínir búa í Reykjanesbæ og við fórum þangað en svo fékk ég íbúðina hjá Kristni Pálssyni sem býr í Innri-Njarðvík. Hann er tengdafaðir Pöllu systur og liggur á sjúkrahúsi svo við getum verið þar til að byrja með, ég er honum mjög þakklát. Sömuleiðis er ég þakklát öllum þeim fjölmörgu sem hafa hringt og boðið fram aðstoð, allt frá mínum viðskiptavinum yfir í vini og kunningja, manni líður ofboðslega vel að finna þann samhug sem er með okkur Grindvíkingum á þessum erfiðum tímum.“