Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Líklegast að gjósi á milli Stóra-Skógfells og Hagafells
Sundhnúkagígaröðin. VF-mynd: Ísak Finnbogason
Þriðjudagur 2. janúar 2024 kl. 12:24

Líklegast að gjósi á milli Stóra-Skógfells og Hagafells

Dregið hefur úr hraðanum á landrisinu við Svartsengi

Vísbending er um að kvikuþrýstingur sé að byggjast upp og þar með aukast líkur á nýju kvikuhlaupi og einnig eldgosi. Dregið hefur úr hraðanum á landrisinu við Svartsengi. Þetta var staðfest með GPS gögnum sem voru til umræðu á samráðsfundi vísindafólks á vegum Veðurstofunnar í morgun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Það að dragi úr hraða landriss er vísbending um að kvikuþrýstingur sé að byggjast upp og þar með aukast líkur á nýju kvikuhlaupi og einnig eldgosi. Þetta er sambærileg breyting á landrisi og fór að sjást í lok dags 15. desember, en þá hófst gos um þremur dögum síðar. Erfitt er þó að fullyrða um hvort að það munstur endurtaki sig.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fyrstu merki um að kvikuhlaup sé hafið er skyndilega aukning í skjálftavirkni, en slík merki sáust rétt áður en eldgosið hófst 18. desember.

Undanfarna daga hefur skjálftavirkni á svæðinu verið nokkuð stöðug, en í kringum 200 skjálftar hafa mælst á dag. Flestir skjálftanna mælast undir 1,0 að stærð en um 30 skjálftar yfir 1,0 hafa mælst frá 29. desember og sá stærsti var 2,1 að stærð og átti upptök í nyrsta hluta Grindavíkur.

Það er áfram mat vísindamanna að ef til eldgoss kemur, er líklegast er að það gjósi aftur á Sundhnúksgígaröðinni, á milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Það er hins vegar mikilvægt að rifja upp að kvikuhlaup enda ekki alltaf í eldgosi, eins og dæmi eru um í tengslum við virknina við Fagradalsfjall og eins í Kröflueldum.

Hættumatskort sem Veðurstofan gaf út 29. desember er óbreytt og gildir til 5. janúar að öllu óbreyttu.

Áfram mælist skjálftavirkni í vestanverðu Fagradalsfjalli en þar hafa rúmlega 100 smáskjálftar mælst frá 29. desember. Rýnt verður nánar í aflögunargögn á næstunni til að fá skýrari mynd á stöðuna við Fagradalsfjall.