Líklega útskrifuð í dag
Þunguð kona sem lenti í bílveltu á Reykjanesbrautinni seinni partinn í gær verður vonandi útskrifuð síðdegis í dag. Að sögn læknis á kvennadeild Landspítalans heilsast henni og ófæddu barninu vel. Konan hlaut lítinn skurð á höfði í veltunni og þegar gert hafði verið að sárinu á slysadeild var hún send til skoðunar á kvennadeildinni. Þetta kemur fram á mbl.is.
Eins árs gamalt barn hennar, sem var í bílnum, sakaði ekki og var það útskrifað í gær.
„Við héldum henni hjá okkur í nótt, bara til að fylgjast með henni,“ sagði læknir á kvennadeild. „Það voru góðar hreyfingar hjá barninu og fósturritið var mjög gott.“ Að sögn læknisins ber konan sig vel og er nokkuð brött. Mun hún sennilega verða útskrifuð af deildinni seinnipart dags.
Mikil hálka var á Reykjanesbrautinni þegar óhappið varð.
Fljúgandi hálka var á Reykjanesbrautinni þegar slysið varð. Myndir: Hilmar Bragi