Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Líflegar umræður á aðalfundi Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur
Miðvikudagur 5. janúar 2005 kl. 17:20

Líflegar umræður á aðalfundi Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur

Fjölmargir sóttu aðalfundi Sjómanna og vélstjórafélags Grindavíkur enda voru þar komnir þeir Sævar Gunnarsson og Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandinu til að kynna nýgerðan kjarasamning sjómanna og LÍÚ. Sævar byrjaði á að lýsa því yfir að hann bæri alla ábyrgð á þeim kjarasamningi sem nú væri verið að kjósa um. "Ég tók þá ákvörðun að semja við útgerðarmenn í stað þess að fara í átök og því fylgir að gefa þarf eftir einhversstaðar. Við lögðum áherslu á að ná fram kröfum um svokallaðan félagsmálapakka og það hefur kostað okkur u.þ.b. 3% lækkun á einstaka launaliðum en verulegar bætur á lífeyrisréttindum og sjúkrasjóði. Þegar allt er reiknað saman höfum við fengið heldur meiri kjarabætur en annað launafólk" sagði Sævar þegar hann útskýrði fyrir mönnum hvernig samningaferlið hefði verið. Hólmgeir kynnti svo samninginn í smáatriðum fyrir fundargestum og að því loknu fóru fram líflegar umræður. Margar fyrirspurnir bárust frá fundargestum og svöruðu Sævar og Hólmgeir þeim jafnharðan. Greinilegt var að ýmis atriði samningsins hafa valdið sjómönnum vonbrigðum en einnig
gætti misskilnings á nokkrum atriðum samningsins. Menn voru mjög ósáttir við að einstaka launaliðir skuli lækka en Sævar fullyrti á móti að ávinningurinn í lífeyrismálum væri meiri en lækkunin. Að þessum umræðum loknum fór fram kosning um samninginn og munu niðurstöur liggja fyrir í vikunni.
Þá tóku við venjuleg aðalfundarstörf þar sem reikningar félagsins voru kynntir. Í framhaldi af því kom fram hörð gagnrýni á sitjandi formann vegna mikils kostnaðar við endurbætur á húsnæði félagsins og einnig byggingu sumarbústaðar á vegum félagsins sem fór verulega fram úr kostnaðaráætlun. Sveinn Eyfjörð bauð sig fram til formanns á móti Hermanni Magnúsi Sigurðssyni sitjandi formanni til að mómæla því sem hann kallaði bruðl. Skemmst er frá því að segja að Hermann Magnús stóð uppi sem sigurvegari og er réttkjörinn formaður til næstu 2 ára og greinilegt að meirihluti félagsmanna ber ekki brigður á fjármálastjórn formannsins og stjórnarinnar.

Myndin: Frá aðalfundinum í Grindavík. VF-ljósmynd/Þorsteinn G. Kristinsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024