Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Lífleg skjálftavirkni vítt og breitt um Reykjanesskaga
Miðvikudagur 27. september 2023 kl. 12:30

Lífleg skjálftavirkni vítt og breitt um Reykjanesskaga

Mikil skjálfavirkni hefur mælst víða á Reykjanesskaganum síðustu sólarhringa. Á sunnudag hófst hrina við Geitafell, sunnan Bláfjalla, og urðu þar þrír skjálftar sem mældust M3-M3,3 og bárust tilkynningar um að þeirra hafi orðið vart á höfuðborgarsvæðinu.

Hátt á níunda hundrað jarðskjálfta mældust úti á Reykjaneshrygg og vestur eftir Reykjanesskaganum dagana 18. til 24. september og var virkni nær samfellt að Kleifarvatni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Helsu svæðin voru: Úti fyrir Eldey (nokkrir skjálftar); á Reykjanesi og rétt út af nesinu; norðan Grindavíkur; í Fagradalsfjalli; við Keili; suðaustan Trölladyngju og að Kleifarvatni, segir á vef Veðurstofu Íslands.

„Það hefur verið ansi lífleg skjálftavirkni vítt og breitt um Reykjanesskaga síðustu vikur. Mynstrið í skjálftavirkninni svipar mjög til þess sem hún hefur verið í aðdraganda eldgosa undanfarinna ára. Staðbundnar hrinur endast fremur stutt og þær hoppar sífellt á milli staða á skaganum.

Á síðustu fjórum dögum hafa hrinur verið í gangi á sex mismunandi stöðum á skaganum sjálfum, auk þess að skjálftar hafa verið að eiga sér stað skammt undan landi við Reykjanestá.

Tveir skjálftar yfir þrjá að stærð urðu með skömmu millibili í gærkvöldi - einn við Sandfellshæð, en hinn um 30 km austar, við Kleifarvatn,“ segir Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands í færslu á fésbókinni.

Þar segir einnig að landris undir Fagradalsfjalli hefur verið stöðugt frá því gosinu við Litla Hrút lauk í ágúst. GPS mælir við Festarfjall, sunnan Fagradalsfjalls, hefur risið um rúmlega 2 sentimetra frá goslokum. „Í raun hefur landris verið í gangi meir og minna í nokkur ár, en það virðist einungist staðna rétt á meðan eldgos standa yfir,“ segir í færslunni.