Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

 Lífleg fréttavika á vf.is
Sunnudagur 16. október 2011 kl. 13:37

Lífleg fréttavika á vf.is


Það hefur verið nokkuð lífleg fréttavika á Suðurnesjum eins og sjá má í meðfylgjandi samantekt yfir nokkra af viðburðum vikunnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Mánudagur: Ánægja með skýrslu um sameiginleg atvinnusvæði á Suðurnesjum

Lögð voru fram drög að svæðisskipulagi Suðurnesja frá 2008-2024 á fundi Sambands Sveitarfélaga á Suðurnesjum um helgina þar sem áhugaverðar tillögur um fjögur sameiginleg atvinnusvæði á Suðurnesjum sem hafa eigi ákveðna sérhæfingu voru kynnt. Hlaut stefnumótunin afar góðar viðtökur hjá fulltrúum sveitarfélaga sem voru viðstaddir fundinn. Með þessum tillögum er áætlað að efla þjónustu við ferðamenn og styðja við núverandi starfsemi. Drögin voru kynnt sem ein af megin forsendum þess að Suðurnesin verði áhugaverður búsetukostur og fjölbreytt atvinnutækifæri og vel launuð störf verði á svæðinu.


Mánudagur: Dæla úr sökkvandi báti í Njarðvíkurhöfn

Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Suðurnesja dældu sjó úr sökkvandi báti í Njarðvíkurhöfn. Tilkynnt var um að Álftafell, sem er 30 tonna fiskibátur, væri að sökkva í höfninni. Sem betur fer var að fjara út og sat báturinn orðið í botni þegar að var komið. Mikill sjór var í bátnum, sem er vélarvana og beið þess að komast í slipp í Njarðvík.


Þriðjudagur: Söngelskar konur óskast í Kvennakór Suðurnesja

Það er ýmislegt framundan hjá Kvennakór Suðurnesja á næstunni og leitar kórinn nú að söngelskum konum í allar raddir en þó sérstaklega í alt. Þann 29. október verður haldinn haustfagnaður þar sem kórkonur munu bjóða til sín öllum kórum á Suðurnesjum og verður þar væntanlega mikið sungið. Þessi skemmtun er liður í fjáröflun kórsins fyrir væntanlega söngferð en ætlunin er að heimsækja frændur okkar Færeyinga næsta sumar. Einnig mun kórinn fara í sína árlegu laufabrauðssölu í nóvember.

Kvennakór Suðurnesja mun halda tvenna jólatónleika í byrjun desember og verða þeir nánar auglýstir síðar. Kórkonur eru byrjaðar að æfa jólalögin á fullu og má búast við frábærum tónleikum sem koma öllum í jólaskapið. Það er alltaf eitthvað um að vera hjá kórnum og eru konur sem hafa gaman af söng og vilja taka þátt í skemmtilegum félagsskap hvattar til að kíkja á æfingu. Kórinn æfir á mánudögum kl. 20 í Listasmiðjunni á Ásbrú og raddæfingar eru á miðvikudögum kl. 20. Einnig geta konur haft samband við formann kórsins, Ínu Dóru Hjálmarsdóttur í síma 898-7744.


Þriðjudagur: Nýr tónn sleginn á atvinnumálafundi í Garði

Vel á annað hundrað manns sóttu að margra mati vel heppnaðan atvinnumálafund á Garðskaga sl. mánudagskvöld en greint var frá fundinum í fréttum á vf.is sl. þriðjudagsmorgun. Bæjarstjórn Garðs stóð fyrir fundinum en frummælendur voru Kristján Möller alþingismaður og formaður atvinnuveganefndar og Oddný G. Harðardóttir alþingismaður Suðurkjördæmis, en Oddný býr í Garði.

Nýr tónn var sleginn á fundinum í samstarfi manna um að koma atvinnulífinu á Suðurnesjum í gang sem fyrst. Á fundinum voru menn hvattir til að hætta að líta í baksýnisspegilinn og sýna frekar fólki á Suðurnesjum að þeim sem fara með málaflokkinn sé treystandi til að leiða málið í örugga höfn sem fyrst.

Kristján Möller fjallaði helst um stóriðjuna á Suðurnesjum í erindi sínu á meðan Oddný fjallaði um menntun og smærri atvinnugreinar.

Suðurnesjamenn voru hvattir til samstöðu á fundinum og til að ýta á eftir málum af sameininlegum þunga.

Fram kom að enn er bið eftir gerðardómi frá Svíþjóð sem ákvarða mun í orkusölumálum milli HS Orku og Norðuráls í Helguvík. Þar er í gegnum mikið pappírsflóð að fara en gerðardómurinn hefur fengið yfir 7000 blaðsíður af gögnum til að fara yfir í málinu.

Það kom einnig fram að Norðurál er tilbúið með alla þætti framkvæmdarinnar og um leið og skrifað hefur verið undir samninga um orkukaup, hvort sem það er við HS Orku eða Landsvirkjun, þá verður gefin út tilkynning um að farið verði á fulla ferð með verkefnið sem mun skapa 1500 - 2000 manns atvinnu.



Þriðjudagur: 150 MW frá Landsvirkjun setja allt á fulla ferð í Helguvík

Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, sagði á atvinnumálafundi í Garðinum að fái fyrirtækið vilyrði fyrir 150 megavöttum frá Landsvirkjun þá fari framkvæmdir á fulla ferð í Helguvík. Framkvæmdir geta farið af stað þrátt fyrir að niðurstöður gerðardóms í orkusölumálum milli HS Orku og Norðuráls liggi fyrir.

Ragnar sagði að Norðurál hafi viðrað þessa hugmynd við Landsvirkjun í vor en botn er ekki fenginn í málið. Fram kom í máli Ragnars í gær að Landsvirkjun ætli að virkja 1200 til 1500 megavött á næstu 10 árum og því sé Norðurál aðeins að óska eftir litlum hluta af því.

Fjárfestingin í Helguvík er orðin 18 - 20 milljarðar króna og sagði Ragnar sorglegt að horfa á fjárfestinguna án þess að hún skilaði ávöxtun.

Ragnar sagði að gengið hafi verið frá orkuverði við HS Orku árið 2007 en ágreiningur er um túlkun á fyrirvörum í samnignum um orkuverðið. Það sé það mál sem gerðardómurinn í Svíþjóð sé núna með til meðferðar. Niðurstöðu þaðan seinkar enn en dómurinn þarf m.a. að fara yfir 7000 blaðsíður af gögnum í málinu.


Þriðjudagur: Zoran nýr þjálfari Keflavíkur

Zoran Ljubicic er nýráðinn þjálfari Keflvíkinga í Pepsi-deild karla og honum til aðstðoar verður gamli reynsluboltinn Gunnar Oddson en báðir áttu þeir farsælan feril með Keflvíkingum á árum áður.


Miðvikudagur: Prófaði sprengiefni í Krýsuvík

Aðilinn sem stal 300 kílóum af sprengiefni í síðustu viku kom af stað sprengingu í hluta efnisins í Krýsuvík. Eftir að upp komst um þjófnaðinn var gæsla aukin við ýmsar opinberar byggingar. Þetta staðfestir Friðrik Smári Björgvinsson hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í samtali við Morgunblaðið.


Miðvikudagur: Heimsmet í FS

Nemendur og kennarar við Fjölbrautaskóla Suðurnesja slógu sennilega heimsmet í svokölluðum Superman-dansi á miðvikudag. Skólinn er nú að hefja þátttöku í verkefni Lýðheilsustöðvar sem heilsueflandi framhaldsskóli. Verkefnið var formlega sett af stað með dagskrá á sal skólans í dag og þar var mikið um dýrðir.

Til að hvetja nemendur til dáða ákváðu kennarar og starfsmenn að troða upp á sal og bregða á leik með því að dansa Superman-dansinn við klassískt lag Ladda. Taktarnir voru í einu orði sagt stórkostlegir og það er ekki vafamál að þessi uppákoma hefur hvatt nemendur, kennara og starfsmenn til að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni af fullum krafti.


Fimmtudagur: Mikil aukning í þorskafla í Grindavík

Alls var 2.795 tonnum landað í Grindavíkurhöfn í september samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofu Íslands. Þetta er um 170 tonna aukning frá sama mánuði á síðasta ári. Sérstaka athygli vekur mikil aukning á þorskafla á milli ára. Í síðasta mánuði komu 1.045 tonn af þorski á land í Grindavíkurhöfn borið saman við 625 tonn í sama mánuði í fyrra.


Fimmtudagur: Bæjarstjórinn í Garði: Við munum sigrast á vandamálum Gerðaskóla

Víkurfréttir vöktu athygli á vf.is á sláandi upplýsingum úr skólastarfinu í Garði sem getið er um í fundargerð skólanefndar Gerðaskóla nú á dögunum. Þar kemur fram í svari meirihluta skólanefndar í svarbréfi til Mennta- og menningarmálaráðuneytis að í Garði þurfi 13,3% nemenda að þola einelti, að af hverjum 100 börnum við skólann þurfi 13 börn að þola einelti oftar en tvisvar til þrisvar í mánuði. Þá getur meirihluti skólanefndar um það í svarbréfi sínu til ráðuneytisins að í skólanum hafi myndast fámenn klíka starfsmanna sem í krafti samstöðu og langs starfsaldurs ráði í raun miklu, of miklu, um stjórn skólans.

Í sama bréfi til ráðuneytisins er einnig greint frá því að fjölskyldur hafi flutt burt úr sveitarfélaginu til að forða börnum sínum frá einelti í skólanum.

Til að varpa ljósi á það sem er að gerast í þessu eldheita máli í Garðinum tókum við Ásmund Friðriksson, bæjarstjóra, tali. - Sjá viðtalið hér!



Fimmtudagur: Næstu skref ákveðin í kjölfar gerðadóms

Í Fréttaveitu HS Orku og HS Veitum fjallar Júlíus Jónsson forstjóri HS Orku um gerðadómsmál Norðuráls Helguvík og HS Orku síðan í júlí 2010. Norðurál stefndi þá HS Orku vegna orkusölusamnings sem aðilar undirrituðu 23. apríl 2007. Í samninginn voru settir margir og veigamiklir fyrirvarar og líktist samningurinn því um margt í raun viljayfirlýsingu. Helstu fyrirvarar snéru um skilgreinda lágmarks arðsemi virkjana, um umhverfismat, um árangur af borunum, um samkomulög við viðkomandi sveitarfélög og um samninga við Landsnet um flutning orkunnar.

Fimmtudagur: Vel sóttur fyrirlestur um skaðsemi kannabis

Fimmtudaginn 6. október 2011 var haldinn vel sóttur fræðslufundur í ráðstefnusal Íþróttakademíunnar í Reykjanesbæ. Fundarefnið var Bara gras ? og var m.a. upplýsinga- og fræðslufundur fyrir foreldra um skaðsemi kannabis.

Jón Sigfússon frá Rannsóknum og greiningu sagði frá niðurstöðum nýjustu kannana R og G, en þar kemur m.a. fram að ungmennin okkar t.d. í Fjölbrautarskóla Suðurnesja eru undir landsmeðaltali þegar spurt er um neyslu á ólöglegum fíkniefnum. Fjöldi ungmenna sem þó hefur prófað slík efni er reyndar allt of mikill og það sorglega er að þau hafa greinilega ekki kynnt sér skaðsemi efnanna. Hér er um verðugt verkefni fyrir okkur öll að ræða, að fræða unga fólkið miklu betur um þetta.
Þeir Kristján Geirsson og Guðmundur Baldursson frá Lögreglunni á Suðurnesjum sögðu m.a. frá reynslu lögreglunnar af fíkniefnaneytendum og sölumönnum og ótrúlegum aðferðum þeirra til að ná til unga fólksins m.a. með alls konar tískuvörum sem eru merktar með hassplöntum.

Erlingur Jónsson kynnti starfsemi Lundar og sagði einnig frá persónulegri reynslu sinni og fjölskyldu hans af því að afneita tilvist neyslu sonar. Allt of margir foreldrar hafa gengið í gegnum slíka afneitun og telja sig ekki geta þekkt þau einkenni sem fylgja neyslunni. Hann hvatti foreldra til að leita sér upplýsinga um þetta og horfast svo í augu við vandann ef hann kemur upp.

Í lokin mætti handboltakappinn Logi Geirsson, með sinn alþekkta kraft og húmor, en með alvöruna í bland þegar hann sagði frá samskiptum sínum við börn og ungmenni um allt land. Þar leggur hann áherslu á að þau setji sér skrifleg markmið en geri sér líka grein fyrir margvíslegum og hættulegum hindrunum á leiðinni að þeim góðu markmiðum. Logi staldraði ekki við þar heldur bauð hann sig fram til þess að gerast talsmaður Reykjanesbæjar í forvarnarmálum og sagan segir að fyrirhugað samstarf Loga og Reykjanesbæjar sé nú í vinnslu.

Föstudagur: Hvít jörð í morgunsárið

Margir hafa eflaust vaknað í morgunsárið við kunnuglegan hljóm frá glugganum. Þar var enginn annar en vetur konungur að gera vart við sig með vænum skammti af hagléljum og tilheyrandi látum. Víða blasti við hvít jörð þegar komið var utandyra í morgun og kannski er þetta merki um veturinn sé handan við hornið, en fyrsti vetrardagur er laugardaginn 22. október.


Föstudagur: Gefur út bók um umhverfisvænar snyrtivörur

Arndís Sigurðardóttir úr Reykjanesbæ er að senda frá sér sína fyrstu bók sem inniheldur fjölmargar uppskriftir af náttúrulegum og umhverfisvænum snyrtivörum eftir hana sem fólk getur búið til sjálft án mikillar fyrirhafnar. Bókin heitir Náttúruleg fegurð - búðu til þínar eigin snyrtivörur og er væntanleg fljótlega. Í bókinni er fjöldi uppskrifta að náttúrulegum kremum, skrúbbum og möskum, fóta- og handaböðum og hárnæringu, allt búið til úr aðgengilegu og einföldu hráefni. Bókin er fyrir alla sem hafa áhuga á náttúrulegum snyrtivörum og vilja hugsa vel um húð sína og líkama að sögn Arndísar.
http://www.vf.is/Mannlif/50272/default.aspx


Föstudagur: Grillhornið tekur til starfa

Ingigerður Guðmundsdóttir rak áður mötuneytið í Fjölbrautaskóla Suðurnesja í rúmlega 15 ár en nú hefur hún söðlað um og opnað nýjan veitingastað sem býður upp á mikið úrval að fljótlegum mat. Ingigerður lét gamlan draum sinn rætast eftir að rekstur mötuneytisins svo boðinn út og tilboði Axels í Skólamat tekið en hana hafði alltaf langað til að opna veitingastað. Nefnist nýji staðurinn Grillhornið.



Föstudagur: 4,1% telja sig verða fyrir einelti í Gerðaskóla

Þann 30. september sl. var samskiptadagur í Gerðaskóla. Í viðtölum þann dag fóru umsjónarkennararnir yfir þá vinnu sem er í gangi í skólanum í eineltismálum. Einnig var farið yfir skilgreiningu eineltis samkvæmt hugmyndafræði Olweusar.

Í framhaldi af því var lögð fyrir alla foreldra og nemendur skólans stutt könnun. Spurningarnar voru eftirfarandi: Verður þú fyrir einelti í skólanum? Veist þú um einhvern sem verður fyrir einelti í skólanum? Veist þú um einhvern sem leggur aðra í einelti? Með þessu móti var safnað saman upplýsingum frá öllum nemendum og foreldrum í Gerðaskóla. Að sjálfsögðu var það tekið skýrt fram í viðtölunum að þessar upplýsingar væru trúnaðarmál og með þær yrði farið sem slíkar.

Nú er búið að taka saman þessar upplýsingar og telja Gerðaskóli telur ómetanlegan grunn til þess að vinna markvisst að því að útrýma einelti í skólanum. Heildarniðurstöður sýna að nemendur í 4.-10. bekk vildu tilkynna um 6 tilvik eineltis. Þessar niðurstöður gefa til kynna að hlutfall þeirra sem telja sig verða fyrir einelti í skólanum er 4,1%.

Þessar niðurstöður eru þvert á þær sem komu fram í fundargerð skólanefndar Gerðaskóla nú á dögunum. Þar kemur fram í svari meirihluta skólanefndar í svarbréfi til Mennta- og menningarmálaráðuneytis að í Garði þurfi 13,3% nemenda að þola einelti, að af hverjum 100 börnum við skólann þurfi 13 börn að þola einelti oftar en tvisvar til þrisvar í mánuði. Þá nefndi meirihluti skólanefndar það í svarbréfi sínu til ráðuneytisins að í skólanum hafi myndast fámenn klíka starfsmanna sem í krafti samstöðu og langs starfsaldurs ráði í raun miklu, of miklu, um stjórn skólans.


Laugardagur: Rignir öskuhnullungum í Reykjanesbæ

Það rigndi sannkölluðum öskuhnullungum í Reykjanesbæ sl. nótt. Meðfylgjandi myndir voru teknar í morgun á yfirbreiðslu á heitum potti á 7. hæð við Pósthússtræti í Keflavík.

Einar Guðberg Gunnarsson, sem tók myndirnar segir að augljóslega hafi rignt ösku í nótt. Myndir voru teknar á sama stað seint í gærkvöldi og þá er engin aska sjáanleg. Í morgun um kl. 9:30 hafi staðan verið eins og sú sem sést á meðfylgjandi myndum.

Einar hefur sent myndirnar til Veðurstofu Íslands en stærstu kornin eru um 4 millimetrar á lengd.


Sunnudagur: Uppskipun á gagnaveri í Helguvík

Uppskipun á gagnaveri Verne Global hófst í Helguvík í morgun. Nú er unnið að því að koma búnaði gagnaversins úr flutningaskipinu og í dag má búast við því að byrjað verði að flytja búnaðinn frá hafnarbakka og á Ásbrú, þar sem gagnaverið verður sett upp í húsnæði Verne Global.

Meðfylgjandi mynd var tekin á hafnarbakkanum í Helguvík nú áðan en gagnaverinu hefur verið pakkað inn í segltjöld sem eru rækilega merkt Verne Global og framleiðandanum Colt í Bretlandi.

VFmynd: Hilmar Bragi