Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Lífeyrissjóðir kaupa hlut í HS Orku
Þriðjudagur 31. maí 2011 kl. 14:36

Lífeyrissjóðir kaupa hlut í HS Orku

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Lífeyrissjóðirnir fjórtán, sem undanfarna mánuði hafa skoðað möguleg kaup á hlut í HS Orku hafa í kjölfar ítarlegrar skoðunar gengið frá samningum um kaupin við dótturfélag Alterra Power (áður Magma Energy). Lífeyrissjóðirnir hafa stofnað samlagshlutafélagið Jarðvarma slhf. til að halda utan um eignarhlutinn fyrir hönd sjóðanna.

Lífeyrissjóðirnir hafa skoðað fjárfestingu í HS Orku um nokkurt skeið og ákváðu um miðjan apríl sl. að halda áfram viðræðum við Alterra Power um mögulega fjárfestingu í HS Orku og hefja áreiðanleikakönnun á félaginu. Þá lágu þegar fyrir helstu útlínur viðskiptanna og skilmálar.

Samkvæmt samkomulaginu kaupir Jarðvarmi 25 prósent hlutafjár í HS Orku á genginu 4,63 krónur á hlut. Kaupverðið nemur því tæpum 8,1 milljarði króna og er miðað við að greiðslan fari fram á morgun 1. júní. Jarðvarmi fær jafnframt kauprétt á nýjum hlutum í HS Orku á genginu 5,35 krónur á hlut en verði kauprétturinn nýttur að fullu verður eignarhlutur Jarðvarma í HS Orku 33,4 prósent. Samkomulagið felur einnig í sér rétt Jarðvarma til að skrá sig fyrir allt að helmingi heildarhlutafjár HS Orku með kaupum á nýjum hlutum sem HS Orka kann að gefa út í framtíðinni.

Jarðvarmi mun tilnefna tvo af fimm stjórnarmönnum HS Orku. Rík minnihlutavernd, virk þátttaka í stjórn félagsins og formleg aðkoma að öllum meiriháttar ákvörðunum á vegum félagsins eru meðal skilmála viðskiptanna og helst það fyrirkomulag ótímabundið, nemi eignarhlutur Jarðvarma í HS Orku meira en 22,5 prósentum heildarhlutafjár.

Ráðgjafi lífeyrissjóðanna í þessum viðskiptum var Arctica Finance, sem hafði yfirumsjón með kaupferlinu. LEX hafði umsjón með lögfræðilegri áreiðanleikakönnun og lögfræðiráðgjöf við samningagerð, PwC sá um fjárhagslega og skattalega áreiðanleikakönnun og Reykjavík Geothermal sá um jarðfræðilega, tæknilega og rekstrarlega áreiðanleikakönnun.

Þeir lífeyrissjóðir sem standa að baki kaupunum eru Almenni lífeyrissjóðurinn, Eftirlaunasjóður FÍA, Festa lífeyrissjóður, Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Gildi lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður bænda, Lífeyrissjóður starfsmanna Búnaðarbanka Íslands, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins – A deild, Lífeyrissjóður verkfræðinga, Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja, Stafir lífeyrissjóður, Stapi lífeyrissjóður og Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda.