Lifandi Vogmær í fjörunni í Garði
Lifandi vogmær fannst í fjörunni við Gerðabryggju í Garði í gærkvöldi. Það voru börn í Garðinum sem fundu þennan furðulega fisk, sem er sjaldséður en hefur þó verið að reka á fjörur í meira mæli síðustu misseri.
Vogmær (Trachipterus arcticus) er ein af níu tegundum fiska af vogmeyjarætt (Trachipteridae) og sú eina af þessari ætt sem finnst við Ísland. Vogmær er afar sérkennilegur fiskur í útliti. Hún verður allt að 3 metrar að lengd en er afar þunnvaxin. Einn langur bakuggi gengur eftir endilöngu bakinu og er hann rauður á litinn eins og hinir örsmáu eyruggar og kviðuggar. Sporðurinn er líka rauður og vísar aðeins upp á við. Sjálf er vogmeyjan silfurgrá á lit. Augun eru stór og munnurinn sérstakur þar sem hann lengist fram í trjónu þegar hann er opnaður.
Vogmærin sem var í fjörunni í Garði var um einn metri að lengd. Meðfylgjandi myndir tók Hilmar Bragi af fisknum.
Einn langur bakuggi gengur eftir endilöngu bakinu og er hann rauður á litinn eins og hinir örsmáu eyruggar og kviðuggar. Sporðurinn er líka rauður og vísar aðeins upp á við.
Augun eru stór og munnurinn sérstakur þar sem hann lengist fram í trjónu þegar hann er opnaður.