Líf og fjör við Njarðvíkurhöfn
Brettingur KE kom að landi við Njarðvíkurhöfn nú um hádegi með fullfermi af makríl en báturinn var það drekkhlaðinn að ekki var nægilega mikið af körum til um borð undir aflann. Skipið var á veiðum á Skerjadýpi suðvestur af Reykjanesi.
Aflinn var um 60 tonn eða 190 kör og Lúðvík Börkur Jónsson framkvæmdarstjóri Íslenska Makrílveiðifélagsins segir að framundan sé líklega 20 tíma törn þar sem markríllinn verður frystur í heilu lagi í húsnæði Saltvers í Njarðvík. „Við erum líka að flaka makrílinn og markaðurinn er að taka vel í það. Ég held að við séum þeir einu hérlendis sem erum að flaka makrílinn,“ sagði Lúðvík þegar blaðamaður kíkti niður á bryggjuna í Njarðvík. Starfsfólkið beið niður í Saltver en Lúðvík sagði að þetta væri sennilega mesti afli sem komið hefur í vinnslu til þeirra í sumar.
Hann sagði jafnframt hafa verið mikið líf á bryggjunni í sumar og stanslaust verið að landa en lítil sem engin umferð hefur verið í Njarðvíkurhöfn undanfarin ár. Vertíðin hefur verið í fullum gangi síðan í júní og mun líklega standa til loka ágústmánaðar.
Skipverjar á Brettingi munu eflaust vinna fram í rökkur enda þarf að koma miklum afla frá borð, svo verður haldið til sjós á ný.